Vinsælustu grilluppskriftirnar

Nú viðrar heldur betur vel til útieldamennsku og því sélega viðeigandi að taka saman lista yfir þær uppskriftir sem vinsælastar eru á Matarvefnum. Úrvalið er sérlega skemmtilegt og því ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. 

Við viljum jafnframt benda á að nú er stjörnugjöfin öllum opin þannig að við hvetjum ykkur til að gefa þeim uppskriftum einkunn í stjörnuformi.

Listinn lítur svona út: 

Nautasteikin sem er að trylla karlpeninginn. Þrátt fyrir að titill uppskriftarinnar vísi í karlmenn þá er það eingöngu af því að við fundum hana í sérstöku blaði sem tileinkað er karlmönnum og allt því viðkomandi kennt við karlmenn eða karlmennsku. Þetta er hins vegar eins alhliða steik og þær gerast enda fátt frábærara en að rífa í sig góða steik og njóta. 

Flanksteik með leynikryddblöndu. Þessi steik er með því besta sem við höfum smakkað. Leynikryddblandan stendur líka fyrir sínu og við skorum á ykkur að prófa að grilla þessa steik en farið vel eftir leiðbeiningunum og passið ykkur að ofgrilla kjötið alls ekki. 

Lambaborgari sem bragð er af. Þessi borgari er óvenjulegur en einstaklega bragðgóður. Eins og tíðarfarið hefur verið er hann hið fullkomna sambland af úti- og innieldamennsku sem útskýrir kannski vinsældir hans. 

Bakað fyllt brauð á grillið. Brauð er gott og grillað brauð er enn þá betra. Uppskrift úr smiðju Tobbu sem hún fullyrðir að sé frábært. 

Nautalund á mýksta mátann. Lund er ekki bara lund og matreiðslan skiptir hér öllu máli. Skotheldar aðferðir til að dekra við kjötið og tryggja að það verði eins mjúkt og hugsast getur. 

Grillaðir tómatar að hætti Hrefnu Rósu. Meðlætið skiptir máli og grillaðir tómatar eru ómissandi í góða grillmáltíð. Að fylla tómata er góð skemmtun og afraksturinn er enn betri.

Grillkjúklingur með engifer og BBQ-sósu. Klassískur kjúlli með engifer og bbq. Þessi blanda er svo bragðgóð að annað eins hefur ekki þekkst og ef þetta er ekki dagurinn til að grilla kjúkling þá vitum við ekki hvenær sá dagur er. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert