Guðdómleg humarsúpa Slippsins

Humarsúpa er fullkomin máltíð í sumar og sól með góðu …
Humarsúpa er fullkomin máltíð í sumar og sól með góðu hvítvíni. mbl.is/Íris Ann Sigurðardóttir

Gísli Matthías Auðunarson, matreiðslumaður á Slippnum í Vestmannaeyjum, á heiðurinn af þessari guðdómlegu humarsúpu sem svíkur engan.

Humarsúpa Slippsins

  • 1,2 kg humarklær - muldar (eða humarskeljar)
  • 5 laukar
  • 30 g hvítlauksgeirar
  • 100 g sellerí
  • 50 g tómat-paste
  • 1 stjörnuanís
  • 1 tsk fennelfræ
  • 1 tsk hvítur pipar
  • 1 tsk kóríanderfræ
  • ½ stk cayenne
  • 5 g sjávarsalt
  • 200 ml hvítvín
  • 5 l vatn
  • sítrónusafi
  • 500 ml rjómi
  • 500 ml nýmjólk
  • 500 g smjör 

Aðferð:

  1. Setjið humarklær í ofnskúffu og ristið við 180°c í 25 mín. Laukar og hvítlauksgeirar eru saxaðir og settir í pott. Allt fræ og krydd mulið og sett með og leyft að krauma með tómatþykkninu.
  2. Svo er ristuðu humarskeljunum bætt út í og hvítvínið með. Soðið niður þar til hvítvínið er nánast horfið. Þá er bætt vatni við. Soðið kröftuglega í 1 klst. Allt sigtað frá og soðið niður um helming. 
  3. Svo er rjóma, mjólk og smjöri bætt við og gott er að mixa hana með töfrasprota á þessu stigi.
  4. Súpan er svo smökkuð til með aðeins meira af sjávarsalti og sítrónusafa, einnig má bæta við meira af cayennepipar ef áhugi er fyrir.

Steinseljuolía

  • 150 g steinselja
  • 250 g repjuolía

Sett saman í blandara og unnið í u.þ.b. 15 mín. á hæsta hraða, eða þar til hún verður heit. Því næst sigtað í gegnum fínt sigti. Geymist í kæli í eina viku.

Súpan er lögð þannig upp:

Humarhalar eru steiktir upp úr hvítlauk og smjöri og settir á diskana, því næst örlítið af þeyttum rjóma og ein tsk af steinseljuolíunni með. Því næst er súpunni hellt yfir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert