KFC biðst afsökunar á mygluðu brauði

Ljósmynd af Facebook. Birt með leyfi.

Glöggur viðskiptavinur KFC í Reykjavík kom auga á frekar ófrýnilega myglu í hamborgarabrauðinu sínu á veitingastað fyrirtækisins í gærkvöldi. Setti stúlkan mynd af brauðinu ásamt lýsingu á atvikinu á Facebook en viðkomandi hafði borðað á veitingastaðnum rétt áður.

Viðbrögðin létu ekki á sér standa eins og gefur að skilja en það vakti athygli að viðbrögðin voru ekki eins ofsakennd og oft vill vera. Sjálf segir stúlkan sem birti myndina að hún hafi engan áhuga á að draga KFC í svaðið enda geti svona nokkuð alltaf gerst. 

KFC svaraði um hæl og baðst yfirmaður hjá fyrirtækinu innilegrar afsökunar á þessu og lét þess jafnframt getið að allir staðir fyrirtækisins fengju nýbakað brauð nánast daglega en þetta yrði rannsakað.

Önnur viðbrögð voru öllu kómískari og margir sem bentu á að þetta væru afskaplega jákvæðar fréttir fyrir íslenska neytendur. Þetta sýndi fram á með óyggjandi hætti að það væru engin rotvarnarefni í KFC-brauðinu og því bæri að fagna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert