Svona getur þú aukið hollustu í mataræði

Gaman er að leyfa börnunum að vera með í að …
Gaman er að leyfa börnunum að vera með í að velja hollan mat og taka þátt í matargerðinni. mbl.is/Thinkstock

Haustið er gengið í garð og enn á ný fara margir að endurskoða mataræðið eftir grillveislur sumarsins. En ekki má gleyma börnunum því lengi býr að fyrstu gerð! Gott er að rifja upp góð ráð um hvernig hægt sé að fá börnin til að borða hollari mat, og finnast hann spennandi og bragðgóður! 

Margir foreldrar kannast við hversu erfitt getur verið að koma grænmeti og annarri hollustu ofan í börn sín. Nú þegar skólarnir eru byrjaðir og rútína kemst á heimilislífið er ekki úr vegi að skoða, eða endurskoða, mataræði barnanna. Börn eru gjarnan sólgin í sykursætan mat eða skyndibita en það er foreldranna að passa upp á mataræði barna sinna og vera góðar fyrirmyndir. En hvað er til ráða ef farið er út af sporinu eða foreldrar vilja bæta sig og bjóða börnum sínum upp á hollari mat?

Í nýrri heilsugrein á cnn.com má finna góð ráð til að auka hollustu í mataræði barnanna.

Passið sykurinn. Ekki gera börnin að sykurfíklum. Sykurinn leynist víða í dag í unnum matvörum. Gott ráð er að banna allt sykrað gos og aðra sykraða drykki. Einnig er mikilvægt að lesa vel á umbúðir og forðast mat sem inniheldur viðbættan sykur.

Leyfið börnum að taka þátt. Fáðu börnin til að vera meðvituð um hollustu og taka þátt í vali á mat og eldamennsku. Börn hafa einstaklega gaman af því að rækta grænmeti eða kryddjurtir, sjá það vaxa og njóta þess að borða eigin uppskeru. Mörg börn hafa líka gaman af því að spreyta sig í eldhúsinu og fá að hjálpa mömmu og pabba við eldamennskuna.

Gefið þeim val. Foreldrar ættu að gefa börnum ákveðið val, en passa að hafa valmöguleikana holla. Gott er að leyfa þeim að velja í nesti hvaða ávöxt þau vilja en ekki bjóða upp á kex eða sætmeti.

Verið hugmyndarík! Mörg börn eru ekki hrifin af grænu grænmeti, eins og spínati og grænkáli. Aftur á móti eru börn oft mjög hrifin af söfum og hristingum ýmiskonar. Hægt er að búa til góða ávaxtasafa og henda með nokkrum grænum laufum. Jafnvel setja smávegis í byrjun en auka magn grænmetis með tímanum. Smátt og smátt venst bragðið og börnum fer að þykja græni drykkurinn nokkuð góður! Þannig þróast líka bragðlaukarnir og barnið öðlast smekk fyrir grænmeti.

Verið góðar fyrirmyndir! Börnin gera allt sem við gerum og ef við borðum hollan mat, vilja þau gera það líka. Verið dugleg að skera niður grænmeti og ávexti og hafa til taks þegar hungrið sverfur að. Það er betra að láta þau herma eftir matarvenjum okkar heldur en að segja þeim hvað þau eiga að borða.

Gerið hollar tilraunir. Oft er gott að endurskoða hversu mikið brauð og pasta fer ofan í börnin. Slepptu öllu brauði með mat og prófaðu þig áfram í að skipta út pasta fyrir strimla úr kúrbít. Notaðu kókós- eða möndluhveiti í stað hvíts hveitis.

Ekki gefast upp. Það er ekki víst að allt breytist á augabragði og stundum er farið út af sporinu. En þetta er langhlaup og hvert skref stuðlar að betri heilsu barnanna ykkar.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert