Bleikt í útgerðina

Karen Kjartansdóttir er prakkari.
Karen Kjartansdóttir er prakkari. Ljósmynd/Karen Kjartansdóttir
Flestir hafa einhvern tímann á ævinni átt erfitt með að standast mátið og fremja ofurlítil prakkarastrik. Aðrir eru þaulæfðir og fremja þau stór í sniðum, ekki bara þegar þroskinn var minni, heldur verða prakkarastrikin bara þaulhugsaðri með aldrinum. Sunnudagsblað Morgunblaðsins bað nokkra vel valda einstaklinga að upplýsa lesendur um eigin hrekki. Einhverjir voru svo prúðir að þeir sögðu frekar frá prökkurum sem þeir höfðu sjálfir lent í en eigin skammarstrikum. Matarvefurinn birtir hér eitt hressandi prakkarastrik sem tengist veitingum.

„Þegar ég starfaði sem samskiptastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og pantaði veitingar fyrir fundi hafði ég lúmskt gaman af því að hafa þær svolítið á skjön. Maður lítur svolítið á útgerðarmenn sem karlmennskuna holdi klædda, sem vilja sinn karlmennskumat, og því fannst mér rosalega fyndið að panta veitingar sem voru rosalega bleikar og heilsusamlegar, búst og djúsa. Svo hló ég og hló til hliðar þegar ég var að horfa á þessa kreðsu svolgra í sig bleikan sjeik eða bleika kokteila með berjum í fínni boðum,“ segir húmoristinn og upplýsingafulltrúinn Karen Kjartansdóttir.

„Þetta eru svona brandarar sem eru ekki sagðir upphátt en ég get sjálf alveg tryllst yfir. Ég get líka átt það til að vera mjög dugleg að dreifa sælgæti í vinnunni ef ég veit að einhver er í megrun og set þá stærstu skálina á borð viðkomandi.“

Í afmælum og sem veislustjóri hefur Karen þá stundum kallað fólk upp sem „vilji segja nokkur orð“ sem vill það nákvæmlega ekki.

„Einu sinni tók ég mig til og lappaði aðeins upp á skrifstofu hjá félaga mínum sem var að byrja hjá okkur. Ég fann hallærislegustu húsgögnin í húsinu, ljóta vasa og gyllta risastyttu af gömlum sjómanni og setti á áberandi staði á skrifstofunni. Þetta byggist allt á áhuga mínum á að henda fólki í aðstæður sem það passar illa í en er of kurteist til að afþakka enda var hann svo kurteis að hann kvartaði ekkert yfir þessu hræðilega dóti.“

Beikt og fagurt í útgerðarpartý
Beikt og fagurt í útgerðarpartý mbl.is/
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert