Guðdómlegur súpubar fangar athygli í miðbænum

Rakel og Örlygur hamast nú við að leggja lokahönd á …
Rakel og Örlygur hamast nú við að leggja lokahönd á nýja Súpubarinn. mbl.is/

Rakel Þórhallsdóttir og Örlygur Ólafsson hafa umbreytt gömlu húsnæði í miðbænum, beint á móti Kaffibarnum, Bergstaðastræti í guðdómlegt unaðshof fyrir grænkera en þar mun á næstu dögum opna útibú frá Súpubarnum vinsæla.  

„Súpubarinn hefur verið starfandi í Borgartúni 26 í B26 húsnæðinu síðastliðin fjögur ár. Það er heimilislegt andrúmsloft í Borgartúninu þar sem Örlygur hefur eldað og framreitt sínar rómuðu súpur síðastliðin ár. Fyrir marga viðskiptavini okkar er þetta fastur punktur í tilverunni og fastakúnnarnir eru margir,“ segir Rakel en fyrir ári síðan opnuðu þau SÚPU á Geysi í Haukadal. „SÚPU hefur verið gríðalega vel tekið á svæðinu og margir ferðalangar eru þakklátir fyrir tilbreytinguna frá skyndibita fæðinu og að fá alvöruvalkost fyrir grænkera.“

Nú er síðan komið að því að opna Súpubarinn í Bergstaðastræti 4 þar sem Matarkistan var áður til húsa. „Örlygur stýrir súpugerðinni þar og mun kynna ýmsar nýjungar fyrir okkur og þar ber helst að nefna hafragrautinn okkar sem er einstakur. Í Bergstaðastræti 4 verður lengri afgreiðslutími eða frá átta til átta alla daga og við verðum einnig með vínveitingaleyfi þar,“ segir Rakel en hönnun staðarins hefur hlotið mikið lof. Nú þegar keppist fólk við að mynda sig fyrir framan húsið sem er alsett framandi grænum plöntublöðum.

„Við fórum ótroðnar slóðir í hönnun á staðnum, jafnt að innan sem utan. Það var rússneska listakonan Karina Ebiatova sem teiknaði fyrir okkur ævintýragrænmetisfrumskóginn okkar. Snillingarnar hjá Skiltamálun Reykjavíkur máluðu eina teikninguna hennar Karinu á framhlið hússins og hún fangar athygli flestra þeirra sem eiga leið hjá húsinu. Inni verður frumskógurinn síðan flísalagður á veggina. Innréttingarnar eru að öðru leyti einfaldar og undir sömu áhrifum og maturinn okkar, þegar hráefnin eru góð er best að leyfa þeim bara að njóta sín,“ segir Rakel en staðurinn er lítill og notalegur en bæði verður hægt að grípa súpur með eða setjast inn. Falleg og bragðgóð viðbót í miðborgina.

Töluverð vinna fór í myndskreytingu hússins sem er einstaklega vel …
Töluverð vinna fór í myndskreytingu hússins sem er einstaklega vel heppnuð. mbl.is/
Hér má sjá ævintýra- og grænmetisskóg Súpubarsins. Karina Eibatova hannaði …
Hér má sjá ævintýra- og grænmetisskóg Súpubarsins. Karina Eibatova hannaði grafíkina fyrir Súpubarinn. mbl.is/
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert