Lakkrísmakkarónur sem trylla kokteilboð

Þeir sem fíla ekki makkarónur gætu þó vel fallið fyrir …
Þeir sem fíla ekki makkarónur gætu þó vel fallið fyrir þessum þar sem lakkrísbragðið dregur úr væmninni sem oft fylgir makkarónum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þessar makkarónur henta einstaklega vel með freyðivíni eða kampavíni ef gera á vel við sig. Vinkonur mínar hreinlega elska að bjóða upp á þessar í kokteilboðum og baða sig í lotningunni sem fylgir. 

Það er eitthvað við samsetninguna á lakkrís og kampavíni sem passar svo fullkomlega. Þessa uppskrift fengum við hjá makkarónudrottningu landsins, Lindu Ben., sem heldur úti makkaronur.is.

Innihaldsefni:

Kökur

75 g möndlumjöl
75 g flórsykur
25 g eggjahvítur
svartur matarlitur
75 g sykur
25 g vatn
25 g eggjahvítur
 

Lakkrískrem 

120 g hvítt súkkulaði
60 ml rjómi
50 g lakkríssíróp 

Kökur
Sigtið saman möndlumjöl og flórsykur, bætið 25 g af eggjahvítum út í og góðri bunu af svörtum matarlit. Blandið vel saman. Setjið vatn og sykur í pott og sjóðið þar til hitastigið nær 117°C.

Þeytið 25 g af eggjahvítum í skál þar til þær eru orðnar alveg stífar, hellið þá sírópinu út í hvíturnar og hrærið þar til blandan hefur kólnað vel. Blandið eggjahvítunum varlega saman við möndlumjölsblönduna með sleikju og setjið í sprautupoka.

Sprautið litla hringi á smjörpappír, reynið að ná þeim öllum jafn stórum og látið standa uppi á borði í um 30 mín. eða þar til kökurnar eru orðnar snertiþurrar. Bakið í 150°C heitum ofni í 12 mín.

Lakkrískrem

Skerið súkkulaðið í litla bita og setjið í skál.
Hellið rjóma og lakkríssírópi í pott og hitið að suðu, hellið svo yfir súkkulaðið og hrærið saman þar til blandan er alveg kekkjalaus og glansandi.
Setjið blönduna í sprautupoka og geymið yfir nótt í kæli.

Sprautið kremi á eina makkarónuskel og lokið með annarri, endurtakið fyrir allar makkarónuskeljarnar. Geymið í lokuðum umbúðum í kæli.
Makkarónurnar eru virkilega fallegar á borði. Þessi guðdómlegi bakki fæst …
Makkarónurnar eru virkilega fallegar á borði. Þessi guðdómlegi bakki fæst í Þorsteini Bergmann og Álfagulli. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert