Fastar í 17 tíma á sólarhring

Ása María Reginsdóttir og Emil Hallfreðsson á brúðkaupsdaginn.
Ása María Reginsdóttir og Emil Hallfreðsson á brúðkaupsdaginn. Ljósmynd/Aldís Pálsdóttir

Ása Reginsdóttir hefur búið ásamt fjölskyldu sinni á Ítalíu í að verða tíu ár. Hún fagnar því núna í október að heilt ár er liðið síðan hún tók það föstum tökum að fasta sem hún mælir heilshugar með. Okkur lék forvitini á að vita hverjar helstu áherlsur hennar eru í fæðuvali, hvað fastan gerir og hvort hún hafi breytt miklu í mataræði sínu.

„Ég reyni að borða hreina fæðu alla jafna sem krefst þess að ég stend þeim mun meira við eldavélina, sem er vel þess virði. Ég fasta alla daga í 17 klst. en þess á milli borða ég hollan og næringarríkan mat – og sleppi alfarið öllum auka fæðubótarefnum og prótein og/eða orkudrykkjum. Ég hef búið á Ítalíu í að verða tíu ár þannig að óneitanlega er matseðill heimilisins orðinn nokkuð ítalskur, þó svo við eigum alltaf til harðfisk í frystinum.“

„Þegar ég hugsa um ísskápinn minn er þar helst að finna alls konar grænmeti sem ég ýmist ofnbaka, svissa á pönnu eða borða hrátt. Svo elska ég fitu og nota mest (og mjög mikið) ólífuolíu en líka íslenskt smjör og rjóma. Egg, fiskur og kjöt, ítalskar skinkur, sólþurrkaðir tómatar, parmesanostur, basilika, sítróna, salt og pipar,“ segir Ása og og víkur þá sögunni að föstunni góðu.

„Núna í október hef ég fastað í 17 klst. á sólarhring í heilt ár – og borða hinar sjö klukkustundirnar þegar ég er svöng. Í föstunni fæ ég mér hreint vatn eða hreint sódavatn ef ég er þyrst. Hina sjö tímana passa ég svo að borða vel og nýt þess að borða hverja máltíð. Ef mig svo langar sætindi fæ ég mér það og borða það með afar góðri samvisku.

Ása segist þó ekki hafa breytt miklu eftir að hún byrjaði að fasta – en að fasta sé mjög góð tilbreyting sem hún mun tileinka sér um ókomna tíð. Og hún trúi því núna að morgunmatur er minnst mikilvægasta máltíð dagsins!

Kynni hennar af föstum hófust þegar hún las rafbókina hans Gunnars Más Sigfússonar sem heitir 17:7 og fæst á habs.is. „Bókin er frábær byrjunarreitur og leiðarvísir fyrir fólk sem er áhugasamt um föstur og/eða er umhugað um heilsuna en veit ekki hvernig best er að bera sig af.

Sjá frétt mbl.is: Fann strax mun á 17:7

„Helsta áskorunin fyrst um sinn var að þrauka þessar 17 klst. Bókin er þó frábært haldreipi og allt í einu hefurðu svo bara fastað í 365 daga og aldrei liðið betur.

Ása segir jafnframt að ávinningurinn af því að fasta sé mjög mikill. „Að leyfa líkamanum að vera í friði og vera ekki stöðugt að ónáða hann með utanaðkomandi áreiti (mat) er nauðsynlegt. Fyrir utan að missa aukakíló er talið að föstur bæti úthald, hægi á öldrun, komi í veg fyrir ótal lífshættulega sjúkdóma og bæti svefninn til muna. Allt þetta hlýtur að vera það sem við viljum fyrir heilbrigt og gott líf. Ég mæli svo hiklaust með að allir landsmenn horfi á Kastljósþáttinn sem sýndur var 8.sept um föstur þar sem talað er um niðurstöður úr stórri rannsókn sem gerð var á föstum.

Spurð um muninn á íslenskri og ítalski matarmenningu segir Ása að hann sé gífurlegur. „Ég veit varla hvar skal byrja. Ítalir halda í gamlar venjur sem hafa reynst þeim vel enda eru þeir ein langlífasta þjóð heims í dag – þannig að eitthvað eru þeir að gera rétt. Hreinar afurðir, grænmeti, ólífuolía, virðing fyrir hráefnunum og matartímum, eðlilegar skammtastærðir og einfaldar uppskriftir einkennir þeirra matarmenningu. Próteinsjeikar og aðrar próteinbættar vörur, orkudrykkir, sælgæti, nammibarir, skyndibitamatur og "take away" er varla sjáanlegt hérna – enda sést það á hinum almenna ítala að hann er ekki að neyta þessara vara, því hér er fólk almennt í kjörþyngd og börnin líka.“

Ása María Reginsdóttir ásamt manninum sínum, Emil Hallfreðssyni, og syni …
Ása María Reginsdóttir ásamt manninum sínum, Emil Hallfreðssyni, og syni þeirra.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert