Ostafyllt pasta í bragðmikilli tómatsósu

mbl.is/Linda Ben

Pasta stendur alltaf fyrir sínu enda dásamleg fæða í alla staði. Þegar pastað er fyllt með osti er það ennþá betra því eins og allir vita er ostur líka dásamleg fæða og því er nánast sjálfgefið að þessi einfalda uppskrift sé alveg hreint stórgóð.

Það er Linda Ben sem á heiðurinn að henni en maturinn hennar er í senn sérlega bragðgóður og lekker og því elskum við að fylgjast með henni. Bloggið hennar má nálgast hér en þar er jafnframt að finna fleiri myndir af þessum dásamlega rétt.

Ostafyllt pasta í bragðmikilli tómatsósu

  • 2 pakkar ferskt tortellini fyllt með osti
  • 1 ½ box sveppir
  • 1 stór rauð paprika
  • 1 dós niðursoðnir tómatar
  • 1 laukur
  • 2 hvítlauksrif
  • 1 krukka tómatpastasósa (val)
  • salt og pipar
  • Parmesan ostur
  • Ferkst basil

Aðferð:

  1. Setjið vatn í meðal stóran pott ásamt olíu og salti
  2. Skerið laukinn smátt niður, steikið hann á pönnu með olíu þangað til hann verður gullin brúnn.
  3. Skerið sveppina niður og setjið út á pönnuna og steikið.
  4. Skerið paprikuna og hvítlaukinn niður og steikið með hinu á pönnunni.
  5. Hellið niðursoðnu tómötunum á pönnuna, ef þeir eru heilir er gott að skera þá niður fyrst.
  6. Ef þið viljið hafa mikla sósu með pastanu þá helliði lítilli krukku af tómat pastasósu útá, smakkið til með salt og pipar. Látið sjóða saman á vægum hita á meðan þið setjið pastað í pottinn og það verður tilbúið.
  7. Sjóðið pastað samkvæmt leiðbeiningum á umbúðunum.
  8. Berið pastað fram með sósunni, ferskri basil og nóg af parmesan osti.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert