Drekkur þú kaffi á kolröngum tíma?

mbl.is/Thinkstockphotos

Það er fastur liður í tilveru flestra að byrja daginn á því að fá sér nýlagaðan og ilmandi kaffibolla en getur verið að verið sé að hefja kaffidrykkjuna á kolröngum tíma og að verið sé að æra óstöðugan með koffínneyslu árla morguns?

Samkvæmt næringarfræðingnum og metsöluhöfundinum, Lauru Cipullo, getur koffínneysla árla morguns valdið því að við verðum taugaóstyrk um miðmorguninn og þreytt rétt fyrir hádegismat. Sökudólgurinn er þó ekki koffínið í kaffinu eins og margur myndi halda heldur hormóninn cortisól sem við framleiðum alveg sjálf.

Rannsóknir sýna að kortísólið er hvað mest í líkamanum fljótlega eftir að við vöknum en minnkar svo rólega uns það rís aftur síðdegis þegar við erum á leiðinni heim úr vinnunni.

Kortisól er það sem oft er kallað streitu-hormóninn og því ráðleggur Cipullo að forðast ætti að neyta kaffis meðan kortisólið er hvað mest í líkamanum því það auki líkurnar á að við verðum fram úr hófi taugatrekkt.

Fleiri vísindamenn hafa tekið undir þetta og því er fólki ráðlagt að spara morgunneysluna í að minnsta kosti þrjár klukkustundir - sérstaklega ef fólk er taugatrekkt eða undir miklu álagi.

Hvernig koffínfíklar eiga að komast í gegnum þessa fyrstu þrjá tíma dagsins er svo önnur (og mögulega ögn flóknari) saga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert