Sturlaugur og Sturlaugur bjóða upp á bjórís

Sturlaugur Jón Björnsson (Borg Brugghús) og Sturlaugur Orri Hauksson (SKúbb).
Sturlaugur Jón Björnsson (Borg Brugghús) og Sturlaugur Orri Hauksson (SKúbb). mbl.is/Haraldur Jónasson
Í dag hóf Skúbbísgerð á Laugarásvegi sölu á bjórís með stökkum kringlum í tilefni af októberfest en sú hátíð er bjórhátíð mikil eins og bjóráhugamönnum er kunnugt. 
 
„Hugmyndin með þessu verkefni var að búa til ís með bjór og þá var ekkert annað en að tala við Stulla og Árna hjá Borg Brugghúsi en þessir snillingar komu með hugmyndir og við hjá Skúbb fórum í þetta að búa til bjórís.  Bjórinn Surtur varð fyrir valinu og það kom strax upp að nota pretzel í ísinn og tengja þetta við októberfest, við gerðum karamellu úr Surti og notum líka Surt í ísinn sjálfan og við erum mjög ánægðir með útkomuna,“ segir Sturlaugur Orri Hauksson hjá Skúbb. Aðspurður hvort þurfi skilríki til að kaupa bjórísinn segir hann svo ekki vera enda sé um óverulegt áfengismagn að ræða.
 
 
„Þetta er frábært stöff eins og allt sem þau eru að gera hér á Skúbb.  Við erum agalega ánægð með útkomuna.  Það er svo um að gera að gera frekari tilraunir heima við og blanda ísnum í góðan og stóran stout, til dæmis Garúnu nr. 19, og búa til svokallað „beer float“.  Ég mein; bjór og ís – verður það eitthvað betra?“ segir Sturlaugur Jón Björnsson, bruggmeistari hjá Borg Brugghúsi.
 
Ísrétturinn ber nafnið Surtur & Pretzel og  verður í boði á meðan birgðir endast, sem er vonandi í einhverja daga segja Sturlaugarnir.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert