Úr bankageiranum í íslenskt snakk

Viðar Reynisson kynnir verkefni sitt á „Matur og nýsköpun“ í …
Viðar Reynisson kynnir verkefni sitt á „Matur og nýsköpun“ í húsi Sjávarklasans. mbl.is/Kristinn Magnússon

Stóru og ljótu kartöflurnar sem neytendur hafa fúlsað við í búðum fá nú framhaldslíf um stund, eða þangað til fólk sporðrennir þeim sem kartöfluflögum. Framleiðsla á alíslensku kartöflusnakki er að hefjast hjá frumkvöðlunum í Náttskugga ehf. í Garðabæ. Heiti vörunnar er „Ljótu kartöflurnar“. Hvað annað?

„Þetta er hugmynd sem vaknaði hjá mér fyrir þónokkrum árum. Ég var búinn að starfa lengi í bankageiranum og langaði að gera eitthvað annað. Hugmyndin kviknaði raunar í Hornafirði þar sem ég hef dvalið mikið með fjölskyldunni og þekki til bænda. Ég hef áhuga á matargerð og þegar ég sá að hægt væri að fá allt hráefnið hér innanlands, kartöflur, repjuolíu og salt og annað krydd, varð ekki aftur snúið,“ segir Viðar Reynisson.

Íslenskt blóðberg á ákaflega vel við flögurnarsem koma í 3 …
Íslenskt blóðberg á ákaflega vel við flögurnarsem koma í 3 bragðtegundum. mbl.is/

Margar tilraunir gerðar

Við tók mikil þróunarvinna og margar tilraunir. Viðar segir að íslensku kartöflurnar séu ekki hentugar í þessa framleiðslu vegna mikillar sterkju. Þær verði dökkar við steikingu og bragðsterkar. Hann hafi fundið leiðir til að ná sterkjunni úr þeim. Hann gerði einnig ýmsar tilraunir til að draga úr fituinnihaldi afurðarinnar og tókst það. Til að ná markmiðum sínum varð hann að fórna íslensku repjuolíunni og steikja upp úr innfluttri sólblómaolíu. Að öðru leyti er þetta framleiðsla úr íslenskum hráefnum og keppir við vörur sem fluttar eru inn eða framleiddar úr innfluttu hráefni.

„Mér fannst ég vera búinn að ná þessu á síðasta ári og ákváðum við í fjölskyldunni að taka stökkið. Ég sagði upp vinnunni í Arion banka og hellti mér út í þetta,“ segir frumkvöðullinn.

Reynir á þolinmæðina

„Þetta reynir alveg á þolinmæðina og fjárhaginn en ég sé ekki eftir neinu og vonandi verður það aldrei. Ég hef tröllatrú á þessari vöru og viðtökurnar eru góðar,“ segir Viðar.

Kartöflusnakkið var sett á markaðinn í byrjun árs en Viðar gerði hlé á framleiðslunni á meðan gerðar voru endurbætur á pökkuninni. Hann er nú kominn í samstarf við fyrirtæki á Akureyri sem annast pökkun flaganna og framleiðsla í nýjum umbúðum er væntanleg á markað á næstu vikum.

Styður við íslenska framleiðslu

Kartöflurnar í snakkinu eru frá Seljavöllum í Hornafirði. Viðar Reynisson segir að þetta sé vannýtt hráefni sem bændur sitji uppi með. Neytendur vilji síður kaupa stórar kartöflur og þær sem eru skringilegar í laginu. Bændum hafi heldur ekki tekist að selja þær sem bökunarkartöflur, þær séu ekki með þá áferð sem fólk er vant.

„Mér finnst mikilvægt að styðja við innlenda framleiðslu og búa til vöru sem er eins íslensk og hægt er. Það aðgreinir hana frá öðrum vörum á markaðnum sem eru ýmist fluttar inn eða gerðar úr innfluttu hráefni. Þarna er tækifæri til að flytja framleiðsluna heim, samfélaginu til góða. Ég held að allir fagni því,“ segir Viðar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert