Eru tröllahafrar betri?

Hafragrautur er vinsæll morgunverður og þykir viðhalda seddu betur en …
Hafragrautur er vinsæll morgunverður og þykir viðhalda seddu betur en ýmsir aðrir morgunverðir. mbl.is/

Hafrar koma í hinum ýmsu útfærslum en vinsælast í morgungrautinn er hefðbundið haframjöl eða tröllahafrar. Nú benda rannsóknir til þess að því stærri eða grófari sem hafrarnir séu því betra. Er þá átt við að grófir hafrar á borð við tröllahafra séu lengur að fara í gegnum meltingarveginn og brotna hægar niður og nýtast líkamanum því betur og hækki blóðsykurinn lítið. Tröllahafrar þurfa þó lengri eldunartíma. 

Grófir hafrar eiga einnig að viðhalda seddutilfinningunni lengur. Það er því vel þess virði að prófa sig áfram með mismunandi hafra og fylgjast með hvaða áhrif þeir hafa á kroppinn. Verður þú ef til vill saddari lengur fram eftir morgni?

Þessar upplýsingar og margar aðrar áhugaverðar komu fram í breska þættinum Sannleikurinn um heilsufæði sem finna má í sarpinum hjá RÚV.

Hér að neðan er að finna góða útskýringu á hinum mismunandi höfrum frá Árna Ólafi Jónssyni, höfundi Hins blómlega bús.

Hægt er að kaupa ýmsar tegundir af höfrum og eru algengustu tegundirnar:

Heilir hafrar eða hafragrjón (e. oat groats) eru, eins og nafnið gefur til kynna, heilir. Hismið hefur verið fjarlægt og yfirleitt eru þeir raka- og hitameðhöndlaðir til að óvirkja ensími í klíðinu sem gerir olíu þeirra þráa. Ég hef tekið eftir því að mikill munur getur verið á eldunartíma heilla hafra, allt frá 45 mínútum upp í tvo tíma. Ég veit ekki hvort það er vegna mismunandi stærðar þeirra eða hvort orsakavaldurinn felist í ólíkum vinnsluaðferðum framleiðenda, nema hvort tveggja sé. Grautur úr heilum höfrum verður mjög rjómakenndur við hina löngu suðu en heilu grjónin gefa honum ótrúlega áhugaverða áferð.

Skornir hafrar (e. steel-cut oats) eru einfaldlega heilir hafrar sem skornir hafa verið með hníf í smærri bita. Það tekur 20-30 mínútur að elda graut úr skornum höfrum.

Tröllahafrar (e. rolled oats) eru gufusoðnir heilir hafrar sem flattir eru út á milli stórra stálvalsa og léttristaðir. Það tekur um 10-15 mínútur að elda graut úr tröllahöfrum.

Haframjöl (e. quick oats) eru gufusoðnir skornir hafrar sem eru valsaðir mjög þunnt og léttristaðir. Það tekur um 5 mínútur að elda graut úr haframjöli.

Skyndihaframjöl (e. instant oats) er forsoðið haframjöl sem síðan er þurrkað. Það tekur innan við mínútu að elda graut úr skyndihaframjöli.

Þegar gerður er grautur úr heilum höfrum er gott að leggja þá í bleyti yfir nótt til að stytta eldunartímann. Ef leggja á hafrana í bleyti í meira en sólarhring mæli ég með að gera það inni í kæliskáp. Við stofuhita gætu þeir byrjað að gerjast og þá kemur súr keimur af grautnum sem sumum gæti þótt ólystugt. Einnig er hægt að leggja hafrana í bleyti í sjóðandi vatn og tekur þá enn skemmri tíma að elda graut úr þeim daginn eftir. Ég kýs hins vegar að nota kalt vatn því mér þykir gott að taka frá hluta hafranna eftir tiltölulega skamma suðu til að eiga inni í ísskáp til að bæta út í salöt eða súpur. Þar sem heilir hafrar þurfa langan suðutíma þykir mér enginn tilgangur að gera graut úr þeim nema gera vænan skammt í einu sem dugar í nokkra daga.

Skornir hafrar (e. steel-cut oats).
Skornir hafrar (e. steel-cut oats). mbl.is/Stockphotos
Tröllahafrar.
Tröllahafrar. mbl.is/Stockphotos
Hefðbundnir hafrar eru minni en tröllahafrar.
Hefðbundnir hafrar eru minni en tröllahafrar. mbl.is/Stockphotos
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert