Grískar kjötbollur

Virkilega góður matur sem er vel þess virði að prófa …
Virkilega góður matur sem er vel þess virði að prófa um helgina. Fyrir þá sem vilja frekar heita sósu er lítið mál að gera eða kaupa heita tómatsósu. mbl.is/Tobba Marinós

Þegar ég er orðin leið á uppskriftarlífi mínu vel ég mér þema til að neyða mig út fyrir þægindarammann og helst út fyrir hin hefðbundnu krydd. Þá vel ég mér land eða þema og leitast við að hafa málsverðinn eftir því. Nú var þemað grískt og útkoman guðdómleg og skemmtilega létt. Fersk mintan kemur sterk inn til að hressa upp á lífið.

Kjötbollur:

600 g nautahakk
1 rauðlaukur
1 egg
2 hvítlauksrif, rifin
60 g gott rasp (ég ristaði súrdeigsbrauð og malaði)
8 væn mintulauf söxuð smátt
4 msk smátt söxuð steinselja
½ msk oregano, þurrkað
2 tsk Creola kryddblanda
1 msk olífuolía
¾ tsk salt
1/3 tsk svartur pipar

Saxið rauðlaukinn mjög smátt. Ég skellti honum í matvinnsluvél til að losna við stóra bita. Ef laukurinn er illa saxaður loða bollurnar illa saman.

Blandið hakkinu og lauknum vel saman með höndunum.

Bætið því næst hinum innihaldsefnunum við og blandið með höndunum.

Gerið litlar bollur – sirka matskeið og raðið á bökunarpappírsklædda pönnu. Það má vel steikja þær á pönnu upp úr olíu, þá eru þær hitaeiningameiri og djúsí og taka meiri tíma. Því baka ég þær oftast.

Bakið í ofni við 180 gráður í um 20 mínútur eða þar til bollurnar fara að taka á sig gylltan lit.

Sósa:

200 g grískt jógúrt
100 g fetaostur (hreinn kubbur)
3 msk appelsínusafi
1 tsk hunang
2 hvítlauksrif, marin
¼ salt
½ tsk svartur pipar
4 væn mintulauf, smátt söxuð

Hrærið öllu saman og myljið fetaostinn út í.

Grískt salat

½ gúrka, í bitum
2 tómatar, í bitum
¼ rauðlaukur, í smáum lengjum
2 msk olífuolía
¼ tsk salt
100 g fetaostur, mulinn
Fersk steinselja ef vill
Ólífuunnendur gætu viljað bæta nokkrum stykkjum við

Öllu blandað saman.

Steikt hrísgrjón með lauk og grænkáli

300 g hrísgrjón
1 laukur
2 hvítlauksrif
2 msk olía
100 g grænkál
½ tsk salt
¼ tsk pipar
½ tsk karrý
50 g frosnar maísbaunir (ekkert grískt við það – en barnið á heimilinu elskar þessar gulu dúllur.)

Sjóðið löng hýðishrísgrjón samkvæmt leiðbeiningum á pakkanum.

Saxið laukinn og hvítlaukinn nokkuð smátt og steikið upp úr olíu.

Saxið grænkálið og bætið því við þegar laukurinn er tekinn að mýkjast.

Svo fara baunirnar frosnar, hrísgrjónin og kryddið saman við.

Steikið við lágan hita í 10 mínútur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert