Hvenær skal yfirgefa matarboð?

Margir gera þau mistök að drekka of mikið í matarboðum …
Margir gera þau mistök að drekka of mikið í matarboðum og missa bæði getuna og viljann til að fara heim. mbl.is/Thinkstock

Það eru margir sem velta þessari mikilvægu spurningu fyrir sér enda vill maður ekki vera ókurteis og fara of snemma og svo vill maður alls ekki vera týpan sem er allt of lengi í boðinu.

Hvenær er því rétti tíminn til að yfirgefa matarboðið er þar af leiðandi spurning sem íþyngir mörgum og við getum glatt ykkur með því að hafa svarið á reiðum höndum.

Sérfræðingurinn sem hér er vitnað til heitir Thomas Blaikie og er svokallaður siðameistari. Hann heldur meðal annars úti dálki í tímaritinu The Lady og þar svaraði hann þessari mikilvægu spurningu um hvenær sé rétti tíminn til að yfirgefa matarboð.

Á virkum kvöldum skal yfirgefa matarboð klukkan 22:30 og um helgar er viðmiðunartíminn 23:15. Hér er að sjálfsögðu gert ráð fyrir að börn séu ekki meðferðis.

Hann segir mikilvægt að brottförin eigi sér óþvingaðan aðdraganda og ákjósanlegast sé að afþakka boð um drykk eftir matinn og forðast sterkt áfengi eftir bestu getu enda lengi slíkt dvölina umtalsvert.

„Ef gestirnir huga ekki að sér geta þeir lennt í því að missa viljann og getuna til að yfirgefa samkvæmið af eigin frumkvæði – oft af því að þeir voru hræddir við að fara of snemma og komu sér í þetta klandur.“

Þetta er sérstaklega bagalegt þegar gestgjafinn vill ólmur losna við gestina – oft með því að bjóða þeim meira, nánast eins og markmiðið sé að drekka þá burt.

Betra sé að þiggja kaffi- eða tebolla eftir máltíðina og muna máltakið: Hætta ber meðan hæðst stendur.

Heimild: Elle Decor

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert