„Afskaplega þakklát ef fólk nennir að bjóða mér í mat”

Berglind Guðmundsdóttir.
Berglind Guðmundsdóttir. mb.is

Berglind Guðmundsdóttir hefur verið einn vinsælasti matarbloggari landsins um árabil og nú geta aðdáendur hennar glaðst því komin er út ný matreiðslubók eftir Berglindi en í ár fagnar hún fimm ára afmæli Gulur, rauður, grænn og salt. Bókin ber titil bloggsins og er sérlega vel heppnuð. Hnausþykk og innihaldsrík, falleg og umfram allt girnileg.

Sjálf segir Berglind um tilurð bókarinn að fólk hafi stöðugt verið að spyrja hana hvenær næsta bók kæmi út. „Í ár fagna ég því að það eru 5 ár síðan vefurinn fór í loftið og því þótti mér viðeigandi að ný bók kæmi út að því tilefni. Bókin inniheldur uppskriftir í anda Gulur, rauður, grænn & salt með áherslu á einfalda og fljótlega matargerð frá öllum heimshornum,” segir Berglind en það er bókaútgáfan Benedikt sem gefur út. „Svo er bókin svo falleg og skreytt með dásamlega litríkum og fallegum ljósmyndum sem Silvio Palladino tók. Hér er góð teymisvinna að gefa vel og ég gæti ekki verið ánægðari með hana.”

Það þýðir þó lítið fyrir lesendur matarbloggsins að bíða eftir því að uppskriftirnar birtist en Berglind á þó von á að lauma inn einni eða tveimur kynningaruppskriftum til lesenda sinna. „Þrátt fyrir að vefurinn hefði ekki verið til án tilkomu vefsins að þá er eitthvað einstakt við að eiga fallegar matreiðslubækur,” segir Berglind.

En hver skyldi uppáhaldsmaturinn vera? „Það er alltaf jafn erfitt að svara þessari spurningu enda er hún háð stemmningu, líðan, félagsskap, umhverfi, aðstæðum, veðri og svo mörgu öðru. En ég er voðalega hrifin af framandi matargerð og þegar ég vil hafa það virkilega huggulegt fæ ég mér indverskan, líbanskan eða tælenskan mat og svo jafnvel rauðvínsglas með. Annars er ég nú ekkert voðalega kröfuhörð og afskaplega þakklát ef fólk nennir að bjóða mér í mat,” segir Berglind en bókin er komin í verslanir og við eigum fastlega von á því að hún muni mokseljast. 

Forsíða nýju bókar Berglindar sem heitir einfaldlega Gulur, rauður, grænn …
Forsíða nýju bókar Berglindar sem heitir einfaldlega Gulur, rauður, grænn og salt. mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert