Fimm eða færri: Tígrisrækju-tagliatelle með chili og engifer brie-sósu

Kokkar eiga það til að gera svo flókinn og fínan mat að okkur hversdagskokkunum hreinlega sundlar. Því ákváðum við að bregða á leik og fá færustu kokka landsins til að taka áskorun Matarvefjarins um að elda dásemdarmat sem inniheldur fimm hráefni eða færri. Það ætti að tryggja að allir ráði við uppskriftina en síðan þurfa kokkarnir að skora á næsta keppanda þannig að það verður áhugavert að sjá afraksturinn enda eru væntingarnar háar þegar kokkar í þessum gæðaflokki eru á ferð.

Fyrsti kokkurinn í áskoruninni er Aníta Ösp Ingólfsdóttir, yfirmatreiðslumeistari á MAR. Hún ákvað að fara einfalda leið að gómsætum pastarétti sem allir ættu að ráða við.

Aníta skorar á Gísla Auðun Matthíasson og nú er að sjá hvað hann kemur með í næstu viku.

Tígrisrækju-tagliatelle með chili og engifer brie-sósu

  • 400 gr. tígrisrækjur
  • 400 gr. tagliatelle pasta
  • ½ l rjómi
  • 1 ½ stk. engifer og chili brie-ostur
  • 1 stk. sítróna

Aðferð:

  1. Rækjur marineraðar í olíu og rifnum berki af einni sítrónu, gott er að láta það liggja í 30 – 60 mín. en það er ekki nauðsynlegt.
  2. Pastað soðið eftir leiðbeiningum. Þegar pasta er soðið er mikilvægt að vera með mikið vatn á móti pastanu, eða sirka 1 lítra af vatni á móti 100 gr. af pasta, þá ætti suðan á vatninu að haldast þegar pastað er sett út í og pastað fær betri eldun.
  3. Þegar pastað er tilbúið er vatnið sigtað frá, smá olíu bætt við og sítrónusafi kreistur yfir það og blandað saman.
  4. Á meðan í öðrum potti er rjóminn hitaður, osturinn skorinn í litla bita og bætt út í, á lágum hita er osturinn bræddur saman við rjómann, passa þarf að hræra reglulega í á meðan, gott er að setja 4-5 matskeiðar af pastavatninu út í sósuna. Þegar osturinn er bráðnaður er gott að sprulla sósuna með töfrasprota til að ná henni alveg kekkjalausri.
  5. Síðast er sósan smökkuð til með salti og pipar.
  6. Rækjurnar steiktar á heitri pönnu og kryddaðar til með salti.
  7. Pastanu og sósunni er að lokum blandað saman og rækjunum raðað á toppinn.
Aníta Ösp Ingólfsdóttir, yfirmatreiðslumeistari á MAR.
Aníta Ösp Ingólfsdóttir, yfirmatreiðslumeistari á MAR. Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert