Kjúklingaleggir í kókos- og kasjúhnetusósu

mbl.is/Bókaútgáfan Benedikt
Berglind Guðmundsdóttir hjá Gulur, rauður, grænn og salt fagnar þessa dagana nýjustu bók sinni sem jafnframt ber nafn bloggsins hennar. Bókin er með afbrigðum vel heppnuð og við máttum til með að deila þessari frábæru uppskrift með lesendum Matarvefjarins.
Sjálf segir Berglind að það séu litfagrir réttir eins og þessi sem hafi kveikt ást hennar á eldamennsku. Hún hafi verið svo heppin að koma til Taílands þar sem hún hafi smakkað allt það besta í þarlendri matargerð og maturinn verið frábær. Þessi réttur sé því nokkurs konar óður til taílenskrar matargerðar.
Kjúklingaleggir í kókos- og kasjúhnetusósu
  • 2 msk smjör 
  • 2 msk ólífuolía 
  • 1 laukur, saxaður 
  • 3 hvítlauksrif, smátt söxuð 
  • 1 msk engifer, smátt saxað 
  • 3 msk karrí 
  • 1½ tsk salt 
  • 1 tsk kummín (ekki kúmen) 
  • hnífsoddur cayenne-pipar 
  • 8-10 kjúklingaleggir 
  • 2 tómatar, saxaðir 
  • 1 msk kóríanderkrydd 
  • 120 g kasjúhnetur, ristaðar 
  • 1 dós kókosmjólk 
  • 100 g sykurbaunir 
Aðferð:
  1. Hitið smjör og olíu saman í potti. Setjið lauk, hvítlauk og engifer í pottinn og steikið við vægan hita þar til laukurinn er farinn að mýkjast. Hrærið í blöndunni allan tímann svo laukurinn brenni ekki við.
  2. Bætið kryddi saman við og blandið vel.
  3. Steikið í 1-2 mínútur.
  4. Bætið kjúklingi saman við og veltið honum upp úr blöndunni.
  5. Steikið kjúklinginn í 3-4 mínútur.
  6. Bætið tómötum og kóríander saman við og hitið að suðu. Setjið lok á pottinn og látið malla við meðalhita í 30 mínútur eða þar til kjúklingurinn er fulleldaður.
  7. Setjið næstum allar ristuðu kasjúhneturnar í matvinnsluvél og maukið vel. Bætið maukinu síðan út í pottinn ásamt sykurbaunum og þeim fáeinu kasjúhnetum sem ekki voru maukaðar.
  8. Látið malla í 5 mínútur til viðbótar.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert