Ný rannsókn kollvarpar hugmyndum um kaffidrykkju

Kaffi er ekki jafn slæmt og margur hugði.
Kaffi er ekki jafn slæmt og margur hugði.

Rannsókn vísindamanna við Southamptonháskóla í Bretlandi bendir til þess að það hafi jákvæð áhrif á heilsuna að drekka þrjá til fjóra bolla af kaffi á dag. Rannsakendurnir rýndu í rösklega 200 rannsóknir á kaffineyslu og komust að því að heilt yfir má fullyrða að hófleg kaffineysla sé góð fyrir kroppinn.

Í ljós kom m.a. að þeir sem drekka um það bil þrjá bolla af kaffi á dag virðast síður líklegir til að glíma við hjartavandamál eða deyja vegna þeirra. Kaffineyslan virðist líka draga úr tíðni lifrarsjúkdóma, þar á meðal tíðni lifrarkrabbameins, en að svo stöddu er ekki hægt að fullyrða með algjörri vissu um orsakaáhrifin enda gætu fleiri orsakaþættir komið við sögu.

Að sögn BBC ættu óléttar konur og fólk sem glímir við heilsufarsvanda eftir sem áður að fara gætilega í kaffidrykkjunni (og kaffínneyslu almennt) enda getur kaffið m.a. haft þau áhrif að hækka blóðþrýsting, framkalla höfuðverk og niðurgang. Þá getur kaffibollinn fljótt orðið óhollur ef hann er bragðbættur með miklu magni af feitri mjólk eða rjóma, og sykri, eða ef það þykir alveg ómissandi að hafa smá kruðerí með hverjum einasta sopa. ai@mbl.is

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert