Marengs-toppar letingjans

Birna Anna Björnsdóttir þykir afspyrnuflink í marengstoppagerð.
Birna Anna Björnsdóttir þykir afspyrnuflink í marengstoppagerð. Árni Sæberg

Birna Anna Björsdóttir gaf á dögunum út bókina Perlan sem fengið hefur frábærar viðtökur enda ekki við öðru að búast þegar Birna Anna er annars vegar.

Birna Anna er mikill meistari þegar kemur mörgu og því skyldi engan undra þótt hún hafi sett saman fyrir okkur veglegan lista yfir aðferðir til að gera einar al-snjöllustu en um leið lekkerustu smákökur sem völ er á. Marengstoppur er nefnilega ekki bara marengstoppur og með þessum stílfæringum Birnu Önnu er hægt að bjóða upp á hitabeltistoppa, ameríska toppa og þar fram eftir götunum en það gefur auga leið að það er umtalsvert lekkerara að bjóða upp á marengstoppa sem heita eitthvað annað en bara marengs.

Birna Anna segir þetta frábæra lausn fyrir almennt upptekna einstaklinga, fólk í brjálaðri vinnutörn, fólk með frestunaráráttu, smábarnaforeldra, nú eða bara heiðarlega letingja. Með einni baksturstörn sé hægt að enda með heilar tíu sortir eða jafnvel meira, það fari allt eftir smekk og ímyndunarafli.

Grunnurinn er marengsdeig sem getur virkað flókið fyrir bökunarfælna en er með því einfaldara sem heimilisbakarinn tekur sér fyrir hendur. Fólk sem hefur aldrei á ævinni bakað ræður mjög auðveldlega við marengs, sem og börn sem eru að taka sín fyrstu skref í bakstri. Þumalputtareglan er fjórar eggjahvítur á móti einum bolla af sykri eða púðursykri. Þá er hvítan í eggjunum skilin frá rauðunum (rauðurnar má geyma í kæli og jafnvel frysta til að nota síðar í annað) og hvíturnar eru þeyttar saman við sykurinn annaðhvort í hrærivél eða með handþeytara. Þegar hvíturnar og sykurinn eru stífþeytt þannig að hægt er að hvolfa skálinni, er marengsdeigið tilbúið.

Þá sé komið að því skemmtilega. Sé ætlunin að gera mjög margar sortir þarf að margfalda uppskriftina eftir metnaði hvers og eins. Hægt er að gera bæði hvítan marengs og púðursykurs-marengs til að auka enn á fjölda og fjölbreytni sortanna, nota má hvorn grunninn sem er í allar útgáfurnar sem hér er stungið upp á. Svo er að sjálfsögðu hægt að nota ímyndunaraflið og búa til sínar eigin tegundir, allt er leyfilegt og mögulegt í þessum efnum.

Þegar viðbótarhráefninu er bætt í marengsinn skal taka minni skál og setja slettu af marengsdeiginu í hana, bæta svo hráefninu út í og hræra varlega, ekki þeyta, með skeið. Hver útgáfa fær sína litlu skál. Svo er þetta allt saman bakað á sama hátt, bökunarpappír er lagður á bökunarplötu og deigið sett á með skeið, með sæmilegu millibili því kökurnar renna út.

Bakað við frekar lágan hita, 150 C, í 10-20 mínútur, eftir stærð toppanna.

Það verður seint talið flókið að gera marengstoppa – þótt …
Það verður seint talið flókið að gera marengstoppa – þótt það hafi vafist fyrir mörgum. Árni Sæberg

Tillögur að tegundum:

Fíneríið: Möndluflögur og saxað dökkt súkkulaði

Hitabeltis-jól: Kókósmjöl og þurrkaður ananas/papaya/annar þurrkaður suðrænn ávöxtur

Jólasveinninn: Mulinn bismark-brjóstsykur og saxað hvítt súkkulaði

Ameríkaninn: Saxaðar salthnetur og saxað dökkt súkkulaði

Íslendingurinn: Lakkrískurl með súkkulaði

Krakkastuð: Saxað M og M

Amma og afi: Mulinn perubrjóstsykur

Barborðið: Muldar saltstangir eða saltkringlur og saxað dökkt súkkulaði

Ferskleikinn: Frosin bláber

Drakúladýrð: Mulinn drakúlabrjóstsykur eða annar piparbrjóstsykur

Marengskökur letingjans

  • 4 eggjahvítur
  • Einn bolli sykur eða einn bolli púðursykur
  • Sjá tillögur að viðbótarhráefni hér að ofan

Aðferð: 

  1. Ofn hitaður í 150 gráður.
  2. Eggjahvítur og sykur þeytt saman þar til stíft.
  3. Viðbótarhráefni hrært varlega saman við.
  4. Bökunarpappír settur á bökunarplötu og deigið sett á með skeið í raðir með góðu millibili.
  5. Bakað í 10-20 mín. eftir stærð toppanna.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert