Súkkulaðibombur með bismark að hætti Svövu

Bráðna í munni!
Bráðna í munni! mbl.is/Ljufmeti.is

Elsku Svava okkar, matgæðingur á ljúfmeti.is, klikkar ekki í jólabakstrinum frekar en fyrri daginn. Þessar smákökur eru sannarlega partí fyrir bragðlaukana.

Súkkulaðikökur með bismark-brjóstsykri 
  • 2 1/2 bolli hveiti
  • 1 tsk. matarsódi
  • 1/2 tsk. sjávarsalt
  • 3/4 bolli kakó
  • 1 bolli ósaltað smjör, við stofuhita
  • 1 bolli sykur
  • 1 bolli púðursykur
  • 2 stór egg, við stofuhita
  • 1 tsk. vanilludropar
  • 1 bolli suðusúkkulaðidropar eða grófhakkað suðusúkkulaði
Súkkulaðihjúpur
  • 200 g suðusúkkulaði
  • 1 dl rjómi
  • 1 bolli mulinn bismark-brjóstsykur eða jólastafabrjóstsykur
Hitið ofninn í 175° og setjið bökunarpappír á bökunarplötu. Hrærið saman hveiti, matarsóda, sjávarsalt og kakó. Setjið til hliðar. Hrærið saman smjöri, sykri og púðursykri í hrærivél (eða með handþeytara). Hrærið eggjunum, einu í einu, saman við. Hrærið vanilludropum í deigið. Bætið þurrefnunum varlega smátt og smátt út í og hrærið saman í deig. Hrærið að lokum súkkulaðinu í deigið. Mótið litlar kúlur úr deiginu (notið um msk. af deigi í hverja kúlu) og raðið á bökunarplötuna.

Þrýstið örlítið á kúlurnar og bakið í um 10 mínútur, eða þar til kökurnar hafa fengið stökkan hjúp en eru mjúkar að innan. Passið að ofbaka þær ekki. Takið úr ofninum og látið standa á plötunni í smá stund áður en þær eru færðar yfir á grind og látnar kólna alveg. Á meðan kökurnar kólna er súkkulaðihjúpurinn útbúinn. Hakkið súkkulaðið og setjið í skál. Hitið rjómann að suðu og hellið yfir súkkulaðið.

Látið blönduna standa í 30-45 sekúndur og hrærið síðan í henni þar til blandan er slétt. Dýfið helmingnum af kökunum í súkkulaðið, setjið á grind (eða bökunarpappír) og stráið muldum brjóstsykri yfir. Látið kökurnar standa í 1-2 klst. eða þar til súkkulaðið er orðið hart. Það má flýta fyrir með því að setja kökurnar í ísskáp.
Mbl.is/Ljufmeti.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert