Oreo-konfekt með bismark og kirsuberjaostakaka

Guðlaug Dagmar Jónasdóttir er mikill sælkeri.
Guðlaug Dagmar Jónasdóttir er mikill sælkeri. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Guðlaug Dagmar Jónasdóttir er mikill sælkeri og hefur alla tíð elskað að baka. Hér gefur hún uppskrift að tveimur jóladesertum sem eru í uppáhaldi hjá henni. 

„Ég verð að viðurkenna að ég er mikill sælkeri og hef mjög gaman af því að baka. Ætli ég hafi ekki verið svona 8-10 ára þegar ég fór að spreyta mig í eldhúsinu. Mér finnst alltaf gaman að prófa að gera eitthvað nýtt en svo eru það alltaf vissar kökur og réttir sem maður gerir aftur og aftur.“

Hvernig desertar og kökur eru í uppáhaldi hjá þér?

„Ég er alltaf hrifin af franskri súkkulaðiköku og reyni að breyta henni með því að hafa mismunandi krem ofan á, kúlukrem, s.s. rjómakúlur og rjómi brætt saman, hefur alltaf verið vinsælt. Svo er ég mjög hrifin af ostakökum og að setja í falleg glös. Þegar það eru stærri veislur set ég ostaköku í lítil plaststaup. Það er bæði fallegt á borði og þægilegt að geta hent svo glösunum.“

Hvað getur þú sagt um þessa eftirrétti sem þú töfrar fram hér?

„Ég er farin að nota Oreo-kökur meira og meira í bakstur. Mig langaði til að gera einfalt jólanammi sem börn væru hrifin af. Í fyrstu áttu kúlurnar að vera einhvers konar trufflur sem mér finnst alltaf svo góðar en mig langaði að prófa eitthvað nýtt. Oreo-myntukúlurnar komu mjög vel út og allir rosalega hrifnir af þeim. Og ekki verra hversu einfaldar og fljótlegar þær eru.

Hinn desertinn er ostakaka sem ég setti í glös. Ég hef smakkað svipaða köku með skyri í en langaði að breyta henni aðeins. Svo er hún svo jólaleg með Lu-kexinu og rauðri sósu. Svo getur maður sett hana í eitt stórt form eða í glös og skreytt eins og maður vill.“

Hvaða hráefni er í uppáhaldi?

„Súkkulaði er nánast í öllu sem ég geri svo já, það er uppáhald.“

Hefur einhvern tímann eitthvað mistekist í bakstrinum hjá þér?

„Já, það hefur sko komið fyrir oftar en einu sinni. Núna seinast var það þegar ég var að drífa mig að gera afmælisköku fyrir karlinn minn. Ég fékk svo góða Oreo-karamelluköku hjá systur minni. Ég var að drífa mig aðeins of mikið þannig að karamellan varð allt of lin og hún flæddi út um allt, hann fékk bara karamelluköku frá Bakarameistaranum í staðinn.“

Hvað einkennir góða deserta?

„Desertar með súkkulaði, karamellu eða rjóma geta varla klikkað. Svo verða þeir líka að vera fallegir.“

Hvað ætlar þú að borða á jólunum?

„Ég held í hefðina og verð hjá foreldrum mínum í hamborgarhrygg. Í forrétt er sjávarréttahlaup sem er mjög ljúffengt og í eftirrétt er heimagerður ís og súkkulaðikaka sem tilheyrir jólunum.“

Oreo-myntukúlur eru jólalegar og gómsætar.
Oreo-myntukúlur eru jólalegar og gómsætar. mbl.is/Hanna Andrésdóttir


Oreo-myntukúlur

14 Oreo-kexkökur (1 pakki)
100 g rjómaostur
100 g hvítt súkkulaði
Bismark-myntubrjóstsykur

Setjið Oreo-kexkökurnar í matvinnsluvél og hrærið svo rjómaostinum saman við. Búið til litlar kúlur.

Bræðið hvíta súkkulaðið yfir vatnsbaði og hjúpið kúlurnar. Myljið Bismark-brjóstsykur og stráið yfir.

Kirsuberjaostakaka í fallegum glösum.
Kirsuberjaostakaka í fallegum glösum. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Kirsuberjaostakaka

500 ml rjómi
60 g flórsykur
100 g rjómaostur
Lu-kexpakki
80 g smjör
Vanillustöng
Kirsuberjasulta
Hindber 

Þeytið rjómann.

Hrærið saman flórsykur, rjómaost og vanillu í annarri skál.

Blandið þessu öllu saman í eina skál.

Setjið Lu-kexið í matvinnsluvél og bræðið smjör saman við.

Setjið Lu-kexið í botninn og ostakökublönduna yfir. Setjið þunnt lag af kirsuberjasultunni yfir og svo aftur smá ostakökublöndu.

Skreytið með hindberjum.

Geymið í kæli í að minnsta kosti 1 klst. Gott er að gera kökuna degi áður en hún er borin fram og geyma í ísskáp yfir nótt.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert