Kvöldverðurinn kostar 200 milljónir

Hér gefur að líta Ce La Vi veitingastaðinn.
Hér gefur að líta Ce La Vi veitingastaðinn. mbl.is/Ce La Vi

Ef þú átt nóg af peningum og lausa stund í Singapúr geturðu farið í dýrasta kvöldverð í heimi sem kostar litlar 200 milljónir íslenskra króna.

Veitingastaðurinn Ce La Vi er á þaki Marina Bay Sands-hótelsins í Singapúr og í samstarfi við hið rússneska World of Diamonds býður það upp á kvöldverðinn.

Fyrst er farið í 45 mínútna þyrluflug yfir borgina. Síðan er tekið stutt stopp á snekkju áður en matargestum er ekið á veitingastaðinn á Rolls Royce þar sem boðið er upp á 18 rétta kvöldverð.

Sjálf máltíðin er boðin með demantsskreyttum prjónum og samanstendur meðal annars af Belon-ostrum, Almas-kavíar, eldgömlu víni og öðrum lúxus.

Ekki má heldur gleyma 10 þúsund rósum og 2,08 karata blá-demantshring sem kallast Jane Seymore eftir leikkonunni.

Engum sögum fer af eftirspurninni en það eru ábyggilega einhverjir sem hafa gaman af svona.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert