Bandarískir fjölmiðlar lýsa efasemdum um framboð Schwarzeneggers

Arnold Schwarzenegger kemur til sýsluskrifstofunnar í Hawthorn í Kalíforníu til …
Arnold Schwarzenegger kemur til sýsluskrifstofunnar í Hawthorn í Kalíforníu til að skrá framboð sitt. AP

Tvö áhrifamestu dagblöðin í Bandaríkjunum lýsa í dag efasemdum með framboð kvikmyndaleikarans Arnolds Schwarzeneggers í embætti ríkisstjóra Kalíforníu. Segir The New York Times í leiðara í dag að þar sem aðeins tveir mánuðir séu til kosninganna bíði kjósenda í Kalíforníu erfitt verk að meta hvort Schwarzenegger sé nægilega öflugur stjórnmálamaður til að takast á við það erfiða verkefni að stjórna Kalíforníu, sem á við gífurlega efnahagserfiðleika að etja. Washington Post segir að kosningarnar í Kalíforníu séu enn eitt dæmið um hve djúpt bandarísk stjórnmál hafi sokkið og segir að enginn sem ber lýðræði í Bandaríkjunum fyrir brjósti muni hafa ánægju af þessu sjónarspili.

Washington Post sagði að þótt Gray Davis, núverandi ríkisstjóri, hafi lent í erfiðleikum þurfi leikinn stjórnmálamann til að ná Kalíforníu upp úr feninu sem hún sé sokkin í. „Frambjóðandinn Conan er óþekkt stærð hvað það varðar," segir blaðið og vísar þar til kvikmyndarinnar Villimaðurinn Conan sem Schwarzenegger lék í fyrir aldarfjórðungi.

Kosningarnar, sem eiga fara fram 7. október, verða í tveimur hlutum. Fyrst þurfa kjósendur að svara þeirri spurningu hvort Gray Davis ríkisstjóri eigi að víkja. Ef þeir eru á þeirri skoðun eiga þeir að velja eftirmann hans.

Ef 50% kjósenda telja að Davis skuli víkja er sú niðurstaða gild. Talið er að allt að 250 frambjóðendur verði í framboði í embættið. Segja sérfræðingar að það þýði að nýr ríkisstjóri verði hugsanlega valinn með 15-30% atkvæða.

Beitti Schwarzenegger sálfræðilegum brögðum?
Schwarzenegger skráði framboð sitt formlega í gær. Stjórnmálaskýrendur segja að Schwarzenegger virðist hafa beitt svipuðum sálfræðilegum brögðum í aðdraganda þess að hann lýsti yfir framboði sínu og hann beitti til að brjóta andstæðinga sína niður þegar hann lagði stund á líkamsrækt fyrir þremur áratugum.

Schwarzenegger gaf ekkert upp um afstöðu sína vikum saman þar til hann lýsti því yfir í spjallþætti Jay Lenos í fyrrakvöld að hann myndi bjóða sig fram. Fram að því höfðu samstarfsmenn hans, stjórnmálaskýrendur og fréttamenn verið þess fullvissir að hann myndi ekki gefa kost á sér.

Þegar Schwarzenegger var fremstur líkamsræktarmanna og vann titilinn Mr. Olympia sex ár í röð töldu margir að sálfræðileg brögð hefðu dugað honum ekki síður en vöðvarnir. Þetta kom m.a. fram í heimildarmyndinni Pumping Iron sem fjallaði um Schwarzenegger og aðra líkamsræktarmenn. Vinir hans frá þeim tíma segja að líkamsræktarmenn séu oft óöruggir með sig og Schwarzenegger, sem ávallt geislaði af sjálfstrausti, lék listavel á þær tilfinningar.

Schwarzenegger, sem nú er 56 ára, hóf 15 ára að stunda líkamsrækt í Graz í Austurríki þar sem hann fæddist. Hann fór til Bandaríkjanna 21 árs gamall og tveimur árum síðar var hann kominn á toppinn í líkamsræktinni. Á árunum 1971 til 1975 vann hann heimsmeistaratitil atvinnumanna í líkamsrækt sex sinnum í röð.

Schwarzenegger átti það til að koma til keppinauta sinna og lýsa yfir samúð sinni yfir að viðkomandi skyldi hafa tognað eða lent í öðrum hremmingum, raunverulegum eða ímynduðum, og þar með var sjálfstraust keppinautarins hrunið. Einnig lýsti hann því í Pumping Iron þegar hann gaf væntanlegum keppinaut ráð um sviðsframkomu sem hinn treysti á og varð sér síðan til skammar.

„Hann sagði: Þú lítur ekki vel út, eða eitthvað þessháttar," segir félagi Schwarzeneggers frá þessum árum. „Þar með var hann alltaf kominn með forskot áður en þeir fóru á sviðið."

Markmið hans var að brjóta andstæðingana niður þannig að þeir misstu einbeitinguna. Eftir það var leiðin greið fyrir Schwarzenegger að vinna keppnirnar.

Í sjálfsævisögu sinni, sem kom út árið 1977, segir Schwarzenegger: „Ég vissi að ég var fæddur sigurvegari. Ég vissi að ég ætti eftir að vinna mikil afrek. Fólk mun segja að þetta lýsi ekki hæversku. Ég er því sammála. Hæverska er orð sem ekki á við mig á neinn hátt."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert