Skiptinemar við Listaháskóla Íslands sýna í Gula húsinu

Það er ekki laust við að erlenda listafólkið öfundi kollega …
Það er ekki laust við að erlenda listafólkið öfundi kollega sína af aðstöðunni sem þeir hafa í Gula húsinu. mbl.is/Jón Svavarsson

Síðastliðinn laugardag opnaði í Gula húsinu sýningin Forrest eða Frumskógur en það eru þau Asami Kaburagi, Cécile Parcillié, Charlotte Williams, Julia Oschatz, Julia Steinmann, Luigi Pixeddu, Manuel Ruberto, Nguyen Viet Thaanh og Verena Lettmayer sem eiga verk á sýningunni. Þau eru öll skiptinemar við LHÍ og segja hugmyndina að sýningunni hafi verið sú að fá alla skiptinemanna við Listaháskólann til að sýna saman, bæði til að gera þau sýnilegri í skólanum og einnig til að hrista þau betur saman.

Þótt verk þeirra séu mjög ólík þá segja þau að aðstæður þeirra séu allar þær sömu og þau séu öll að glíma við sömu vandamálin. Þau segjast öll vera hálfheimilislaus hérna á Íslandi en núna sé Gula húsið orðið heimilið þeirra. „Ég ákvað að sýna hérna í húsinum þegar ég kom hingað í fyrsta skipti fyrir um 3 vikum,“ segir Charlotte sem hefur haft veg og vanda af skipulagningu sýningarinnar. „Ég taldi að það gæti orðið gaman að sýna hér áður en ég færi heim aftur. Þetta er líka frábært tækifæri til að fá að sýna í öðru landi.“ Flest eru þau ánægð með skólann en komu hingað til Íslands kannski frekar út af landinu eða mannlífinu. Skólinn hafi síðan komið þeim ánægjulega á óvart. „Listaháskólinn hérna er mjög ólíkur skólanum mínum,“ segir Charlotte en hún er að læra í Englandi. „Ég er á öðru ári og er í fimm vikna námskeiðum hér, sem ég er alls ekki vön. Yfirleitt standa námskeiðin í skólanum mínum í marga mánuði og sami kennarinn allan tímann en hérna á allt að gerast mjög hratt og það er kannski bara eitthvað sem ég er óvön.“ Einnig fannst þeim öllum gott hversu ólíkir myndlistarmenn eru að kenna og að hér sé líka ungt fólk við kennslu en reynsla þeirra sé að það sé eitthvað sem tíðkast óvíða. „Mér finnst sambandið milli nemanda og kennara hér vera mjög gott,“ segir Julia sem kemur frá Þýskalandi. „Í skólanum mínum er mjög mikil áhersla lögð á það að kennarar og nemendur séu á sitt hvoru planinu sem mér þykir hálfgerður hroki, nokkuð sem ekki fyrirfinnst hér. Stemmningin yfir kennslunni hér er allt önnur og léttari.“ Það kom samt flestum í opna skjöldu hvað nemendurnir vinna lítið í skólanum og er gert að vinna sjálfstætt í staðinn. „Vandinn við það er sá að skortur á vinnuaðstöðu getur komið niður á afköstunum, auk þess sem maður saknar þess að geta fylgst með vinnuferli samnemenda sinna. Þar að auki skortir tilfinnanlega vinnuandann sem er svo nauðsynlegur í listaskólum. Þetta er samt mjög mismunandi eftir bekkjum og skipulagi námskeiðanna,“ segir Charlotte. Ástæðan fyrir þessu telur hópurinn vera að hluta til þá að ekki sé hægt að komast inn í skólann á kvöldin og vinna fram eftir nóttu. Nokkuð sem þau hafa vanist í sínum heimalöndum. „Kannski er þetta líka út af því að skólinn er ekki þar sem fólkið er. Það eru fáir sem búa í nágrenni við skólann og þangað er lítið að sækja. Ég held að það séu allir sammála um að staðsetning skólans sé honum lítt til framdráttar. Nær væri að hafa hann í nágrenni við miðbæinn svo hann gæti nýst betur og nemendur hefðu eitthvað þangað að sækja annað en tímana sem þeir verða að sækja. Það er líka allt of mikið stólað á að maður hafi eigin bíl til umráða til að koma efnivið til og frá skólanum, nokkuð sem er alveg ótrúlegt. Það var mjög fyndið þegar við tókum strætó hingað niður í miðbæ með öll verkin sem eru á sýningunni hér í Gula húsinu,“ segir Julia ákveðin. Húsið handa öllum Þau eru öll mjög þakklát fyrir tækifærið að fá að sýna í Gula húsinu og finnst sérstaða þess vera skemmtileg. „Það frábæra er að þetta er ekki gallerí heldur venjulegt hús,“ segir Charlotte. „Það gefur svo mikla möguleika og ákveðið frelsi sem gallerí veitir ekki. Sýningarstaður sem rekinn er af listamönnum og er alveg frjáls og óháður öllu. Þetta framtak hefur hvatt mig til að koma af stað svipuðum gallerísrekstri í Englandi þar sem ég bý. Þar eru virðuleg gallerí sem þarf að borga fyrir að sýna í en svona staður er eitthvað sem ætti að vera í öllum borgum fyrir listamenn og aðra til að nota.“ Gula húsið er opið alla daga frá 15:00-18:00 og er síðasti sýningardagur sunnudagurinn 1. apríl. Þess má geta að í kvöld kl. 19:00 verður kvikmyndasýning í Gula húsinu á horni Hverfisgötu og Frakkastígs og á sama tíma verður boðið upp á ítalskan mat handa gestum.
mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert í aðstöðu, þar sem gömlu góðu ráðin duga hvergi. Viðkvæmt leyndarmál er þér falið svo gættu þess að bregðast ekki því trausti.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert í aðstöðu, þar sem gömlu góðu ráðin duga hvergi. Viðkvæmt leyndarmál er þér falið svo gættu þess að bregðast ekki því trausti.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant