Guðrún Bergmann - haus
22. maí 2013

Ókeypis alla daga!

dsc_6056_copy.jpgÞegar ég held fyrirlestra eða námskeið um heilsumál, tala margir um að það sé svo dýrt að hugsa vel um heilsuna. Mitt svar er nú yfirleitt að það sé mun dýrara að bíða eftir því að verða veikur og ætla svo að vinna í því að fá bata. Auðvitað er það rétt að lífrænt ræktuð gæðafæða, góð bætiefni, nudd og/eða aðrar heilunarmeðferðir kosta sitt. Hitt er svo annað mál að það er margt sem hægt er að gera til að auka lífsgæðin, svo við getum notið þess að vera ung á öllum aldri, sem kostar ekki neitt. Kíktu á hvort þú getir ekki tileinkað þér eitthvað af þessu - þér algerlega að kostnaðarlausu.

HLÁTUR - Hann er ekki bara smitandi, heldur einnig frábær fyrir heilsuna. Góður hlátur hjálpar okkur að slaka á, getur dregið úr sársauka, bætt starfsemi æðakerfisins og styrkt ónæmiskerfið. Í okkar fjölskyldu er það gamla myndin American Dreamer, sem alltaf fær alla til að hlægja, hversu oft sem við horfum á hana.

SJÁLFBOÐALIÐASTARF - Það er afar gefandi og þeir sem leggja sitt af mörkum fyrir aðra njóta yfirleitt lengra lífs, minna ber á þunglyndi hjá þeim og hjartaáföll eru fátíðari.

TÍMI MEÐ ÖÐRUM - Gæðastundir með þeim sem þér þykir vænt um skilja yfirleitt eftir góða minningu og skemmtilega upplifun. Verðu oftar tíma með vinum þínum, stækkaðu vinahópinn og haltu tengslum við þá sem þér þykir vænt um. Vinir mynda mikilvægt stuðningsnet og eru til staðar ef eitthvað bjátar á.

SVEFN - Settu stefnuna á að sofa í minnst sjö til átta tíma á nóttu - því svefninn stuðlar ekki bara að því að ónæmiskerfi þitt sé í toppstandi, heldur dregur hann úr bólgum í líkamanum, heldur jafnvægi á líkamsþyngd og stuðlar að góðu minni. Auk þess stuðlar góður svefn að því að þú nýtur dagsins betur. 

KÆRLEIKUR - Sýndu ást þína með snertingu og atlotum og segðu þeim sem þú elskar frá því. Innilegt samband og tenging við annan einstakling, hvort sem það eru börn eða fullorðnir, er afar mikilvæg og gefandi, styrkir og eflir jákvæðar tilfinningar, dregur úr streitu og styrkir viðbrögð ónæmiskerfisins.

HUGLEIÐSLA - Hugleiðsla dregur úr streitu, hefur slakandi áhrif á taugakerfið og dregur úr kortisólframleiðslu. Við hugleiðslu styrkjast alpha, theta og delta bylgjur heilans, sem enn eykur á slökun líkamans og eykur vellíðan hans.

GÖNGUFERÐ - Einfaldasta og ódýrasta líkamsræktin felst í því að fara út að ganga, en ótrúlega margir horfa framhjá því. Gönguferð í 30-45 mínútur á dag styrkir ónæmiskerfið, eykur serotonin framleiðslu í heilanum, svo og framleiðslu annarra hormóna sem auka á vellíðan. Gönguferðir eru ekki bara góðar fyrir fótleggina, heldur fyrir allan líkamann.

FAÐMLAG - Faðmaðu einhvern daglega. Faðmaðu þá sem þú elskar, börnin þín og maka, fjölskyldumeðlimi og vini. Faðmaðu líka þá sem þú ert nýbúinn að kynnast og jafnvel þá sem þú hittir bara einu sinni og átt hugsanlega ekki von á að hitta aftur.

ÞAKKLÆTI - Þegar við erum þakklát fyrir það sem við höfum og eigum, fyrir fjölskyldu okkar og vini, hversu margir sem í þeim hópi eru, þá löðum við til okkar meira af því sama. Þegar nýr dagur tekur á móti okkur getum við verið þakklát fyrir að vakna til hans og að kvöldi dags getum við þakkað fyrir allt sem dagurinn færði okkur.

Heimildir m.a. úr bókinni UNG Á ÖLLUM ALDRI
Ljósmyndari: Vera Pálsdóttir