Guðrún Bergmann - haus
23. júní 2013

Hamingja og velgengni

marie-diamond.jpgÞið munið kannski eftir henni úr myndinni The Secret. Hún heitir Marie Diamond og er Feng Shui meistari. Marie var ein af þeim sem stóð fyrir stofnun samtaka sem kallast ATL Europe (Association of Transformational Leaders), sem ég var svo heppin að fá að teljast stofnfélagi að. Í gegnum þau samtök sendir hún okkur hinum ýmis gullkorn, meðal annars þau sem fylgja hér á eftir. Hún gaf mér góðfúslega leyfi til að þýða þau og birta hér í pistli á mbl.is. Hún kallar þau 5 grundvallarskref til að öðlast hamingju og velgengni.

Til að taka fyrsta skrefið á leið að hamingju og velgengni, þarftu að sætta þig við að þú eigir skilið að njóta hamingju og velgengni. Þau réttindi, að þú getir notið hamingju og velgengni, eiga í raun að hafa fylgt þér frá fæðingu. Ef þú trúir ekki að þú eigir rétt á því, er í raun enginn sem getur sannfært þig um það.

Annað skrefið á þessari leið er að vera tilbúinn til að breyta ákveðnum þáttum í lífi þínu til að geta látið þetta verða að raunveruleika. Það fylgir því ákveðin klikkun að halda að þú getir notið hamingju og velgengni með því að gera, upplifa og hugsa sömu hlutina og þú hefur alltaf gert. Sértu ekki að njóta hamingju og velgengni nú, þá er auðsýnilega eitthvað í lífi þínu sem er ekki að virka. Vertu því opinn og sveigjanlegur og gefðu breytingum tækifæri á að eiga sér stað í lífi þínu.

Hvernig geturðu gert það? Til dæmis með því að segja um leið og þú vaknar, líkt og það komi beint frá hjartanu: „Ég nýt hamingju og velgengni hér og nú!" Segðu það upphátt þrisvar sinnum.

Í fyrstu áttu erfitt með að trúa því almennilega, en innan sjö daga muntu finna að tilfinningin verður sannari í hjarta þínu.

Í hvert sinn sem þú upplifir hamingju og velgengni, þakkaðu þá fyrir það með því að segja upphátt. „Takk fyrir hamingjuna. Takk fyrir velgengnina."

Þriðja skrefið felst í því að gleðjast með þeim sem þú sérð að njóta hamingju og velgengni. Þú skalt hvorki öfunda þá né dæma og heldur ekki tala niðrandi um þá. Vertu bara hamingjusamur fyrir þeirra hönd. Sértu ekki hamingjusamur vegna hamingju og velgengni annarra, hvernig í ósköpunum geturðu þá vænst þess að vera hamingjusamur fyrir sjálfan þig?

Fjórða skrefið felst í því að fjarlægja af heimili þínu og skrifstofu alla hluti sem tengjast veikindum, sársauka, þunglyndi, einmanaleika, óhamingju, hörmungum eða illdeilum. Þessar myndir næra innri huga þinn með sannfæringum um að þú getir hvorki notið hamingju né velgengni. Umkringdu þig með fegurð, friðsæld, ljósi, blómum og yndislegum ilmi.

Fimmta skrefið felst í því að taka til í svefnherberginu, stofunni og skrifstofunni til að gefa hamingju og velgengni nægilegt svigrúm til að flytja inn. Kaos í umhverfinu nærir hið gagnstæða. Fólk sem nýtur velgengni og hamingju á alltaf falleg heimili. Ekki bíða eftir því að njóta hamingju eða velgengni. Þú átt möguleika á að bjóða velgengni og hamingju inn í líf þitt strax núna.

Aðeins meira um Marie Diamond. Hún er ein af helstu kennurum, fyrirlesurum og rithöfundum heims í Enlightened Leadership og Mastering of Energy. Hún hefur komið fram í The Secret og fjórum öðrum kvikmyndum sem hvetja fólk til að taka stjórn á eigin lífi og hefur náð til nemenda og viðskiptavina í meira en 185 löndum.

Nánari upplýsingar um Marie Diamond hér.
Facebook síðan hennar er hér.