Guðrún Bergmann - haus
21. júlí 2013

Sólin vekur allt

svanir_ungar.jpgYndislegt var að fylgjast með hvað gerðist í Reykjavík síðdegis í dag, þegar sólin vakti alla með viðveru sinni. Fyrst var eins og fólk varla tryði að hún myndi staldra eitthvað lengur við en hún hefur gert í sumar, það er að segja frekar stutt. En svo breyttist það.

Garðar fylltust af fólki sem sneri andliti sínu upp að þessum gula hnetti og reyndi að fá smá brúnku á rigningarhvít andlitin meðan börnin róluðu sér eða voru í fótbolta. Í sumum görðum var slegið upp garðveislum þegar leið að kvöldmat meðan aðrir sættu sig við að grilla á svölunum eða bara sitja þar og njóta sólarinnar.

Göngustígar sem að mestu hafa verið fámennir í sumar, fylltust af fólki á öllum aldri, sem vildi njóta blíðunnar, jafnvel þótt það væri í raun frekar kalt í lofti. Sumir dróu hjólin fram og þeir sem voru gagnandi máttu vara sig á þessum hljóðlátu farartækjum, sem í heyrist lítið meira en hvisss... um leið og brunað er framhjá. Þau kaffihús borgarinnar sem eru með útiborð sem snúa á móti sólu fylltust og sumir heyrðust segja að það væri nú um að gera að njóta þessa "eina sólardags" sumarsins.

Sjálf hafði ég ætlað í bíó, en þegar ég horfði út á þetta yndislega veður var ekki nokkur séns að ég færi að loka mig inni, ekki einu sinni yfir góðri bíómynd og því fór ég í gönguferð eins og margir aðrir og naut þess að láta sólina verma mig. Og svo nú undir lok dagsins er svo dásamlegt að horfa á sólarlagið og bleikrauð ský sem skreyta himinhvolfið.

Blessuð sólin elskar allt, allt með kossi vekur...