Guðrún Bergmann - haus
1. september 2013

Hinn faldi óvinur

Frá lokum síðari heimstyrjaldarinnar hefur magn eiturefna í notkun í alls konar iðnaði og matvælaframleiðslu aukist gífurlega. Ýmis konar hreinsiefni og skordýraeitur fyrir heimili innihalda efni sem eru skaðleg heilsu fólks og það andar að sér við notkun. Bílum hefur fjölgað ótrúlega mikið og við öndum að okkur útblástursefnum frá þeim og bensíngufum þegar við fyllum á tankinn. Framleiddar hafa verið teflon húðaðar vörur sem notaðar eru við matreiðslu og hér einu sinni kom faraldur af lélegum álpottum á markaðinn, sem allir urðu svartir að innan við eldun og „láku" áli út í matinn okkar.

Samhliða öllu þess aukna álagi frá alls konar efnum í umhverfinu sem líkaminn hefur vart haft nægilegan tíma til að aðlaga sig að hefur sjálfsónæmissjúkdómum fjölgað með ógnvekjandi hraða. Bandaríski læknirinn og heimspekingurinn Noel R. Rose segir að ekki sé að finna neina góða skýring á þessari aukningu sjálfsónæmissjúkdóma aðra en þau skaðlegu umhverfisáhrif sem við verðum fyrir. Sjálfsónæmi er tilraun ónæmiskerfis líkamans til að aðlaga sig öllu því áreiti sem hann verður fyrir úr umhverfinu og aðlögunin virðist ekki takast sérlega vel.

Líkaminn ræðst á eigin vefi
Það var einmitt Noel R. Rose, sem nú starfar sem forstjóri Center for Autoimmune Disease Research við John Hopkins School of Medicine og Bloomberg School of Public Health, sem hóf árið 1951 rannsóknir sem leiddu í ljós að ónæmiskerfi líkamans getur ráðist á eigin vefi. Hann hélt áfram rannsóknum sínum í sex ár áður en hann og Witebsky, sem var yfirmaður hans, birtu niðurstöðurnar úr þeim opinberlega - og önnur 50 ár áður en læknasamfélagið féllst á að þær gætu verið réttar og það þyrfti að grípa til einhverra aðgerða.

Árið 1995 tókst Noel Rose að kreista út örlítinn styrk til að rannsaka hversu margir Bandaríkjamenn þjáðust af sjálfsónæmissjúkdómum. Tveimur árum síðar lágu niðurstöður fyrir og í ljós kom að 9 milljónir þjáðust af þeim 25 sjálfsónæmissjúkdómum sem spurt var um - það er jafnmargir og voru með krabbamein.  Rose og læknanemar hans tóku þá tölu og yfirfærðu hana yfir á þá 55 sjálfsónæmissjúkdóma sem ekki var spurt um í könnuninni og komust að þeirri niðurstöðu að 22 milljónir  - eða einn af hverjum tólf Bandaríkjamönnum - væru að falla fyrir innri óvini. Sjálfsónæmissjúkdómum sem enginn var í raun að rannsaka.

Hvað er sjálfsónæmi?
National Institute of Health í Bandaríkjunum gefur þessa skilgreiningu á sjálfsónæmi: „Yfirleitt sér her hvítra blóðkorna ónæmiskerfisins um að verja líkamann fyrir skaðlegum efnum sem kallast mótefnavakar. Dæmi um mótefnavaka eru bakteríur, vírusar og eiturefni.... En í sjúklingum með sjálfsónæmi, getur ónæmiskerfið ekki greint á milli heilbrigðs líkamsvefjar og mótefnavakans. Afleyðingin er ónæmissvar sem eyðileggur heilbrigða líkamsvefi."

Hvernig birtist sjálfsónæmi?
Sjálfsónæmissjúkdómar birtast á ýmsan máta og hafa mörg mismunandi heiti, eins og tilvísun  til rannsókna Rose hér að ofan gefur til kynna. Margir þeirra virðast tengjast meltingarveginum eins og Crohn‘s sjúkdómurinn, iðraólga (Irritable Bowel Syndrome), ristilbólga og sáraristilbólga. Aðrir tengjast afar mikilvægum innkirtli, skjaldkirtlinum, eins og  Graves sjúkdómurinn sem veldur stækkun skjaldkirtils og ofvirkni hans, en hin hliðin af sjálfsónæmi er svo vanvirkur skjaldkirtill. Fleiri algengir sjálfsónæmissjúkdómar eru MS sjúkdómurinn sem leggst á heilann og mænuna og leiðir meðal annars til jafnvægisskorts og erfiðleika við að stjórna vöðvaviðbrögðum og lúpus sem getur lagst mjög víða á líkamann eins og til dæmis á liðina, nýrun, hjartað, lungun, heilann, blóðið og húðina. Enn algengari birting er liðagigt, vefjagigt, astmi, vöðvaslensfár (myasthenia gravis) og vöðvabólga (myositis) svo eitthvað sé nefnt. Guillain-Barré heilkennið er sjaldgæfari birting sjálfsónæmis, en sá sjúkdómur leggst á úttaugakerfið og lýsir sér fyrst sem dofi í útlimum en getur leitt til algerrar lömunar.

Gleymist að hlusta á konur?
Í Bandaríkjunum er talið að ein af hverjum níu konum þjáist af sjálfsónæmi. Þessar konur hafa oft leitað ítrekað til lækna, áður en þær fá sjúkdómsgreiningu eða skilgreiningu á hvað er að gerast í líkama þeirra þegar þær verða orkulausar, eru alltaf þreyttar, missa stundum mátt, verða máttlausar í fótleggjum við að ganga upp stiga, eru með óútskýrð húðútbrot, þjást af meltingartruflunum og ónotum í kvið eða eru með ýmis konar bólgusjúkdóma, bjúg og vöðvaverki svo eitthvað sé nefnt.

Hugsanlega er það vegna þess að læknar vita hreinlega ekki hvernig greina á það sem að þeim er. Svara er nefnilega oft vant þegar greina á sjálfsónæmissjúkdóma, því lítið hefur verið fjallað um þá í læknisfræðinni almennt fyrr en allra síðustu ár. Augu manna, m.a. í Bandaríkjunum eru að opnast fyrir því að sjálfsónæmissjúkdómar og mengunarvaldar í umhverfinu séu næsta „tóbaksreykinga- og krabbameinstengingin" sem takast þurfi á við í heilsufari fólks.

Heimildir: The Autoimmune Epidemic eftir Donna Jackson Nakazawa