Guðrún Bergmann - haus
5. september 2013

Efnin í líkama okkar

Í framhaldi af grein sem ég skrifaði nýlega um sjálfsónæmissjúkdóma og þá ályktun bandarískra lækna að fjölgun þeirra megi rekja til mengunar úr umhverfinu, en mengandi umhverfi hefur mikil áhrif á mannslíkamann. Sú rannsókn sem greinir hvað best frá þeirri staðreynd að líkamar okkar eru flestir hlaðnir alls konar aðskotaefnum, sem ekki eiga að vera í þeim, er sú sem Mount Siani School of Medicine í New York-borg vann í samstarfi við Environmental Working Group (EWG), en EWG er sjálfstæð og óháð stofnun sem rannsakar meðal annars skaðleg eiturefni í mat, snyrtivörum og ýmsu öðru.

Mengað blóð, mengaður líkami
Rannsókn eins og sú sem þeir unnu er sérlega dýr, svo í hana voru valdir níu einstaklingar alls staðar að úr Bandaríkjunum. Blóð og þvag úr þessum einstaklingum var skoðað og vísindamenn komust að raun um að af þeim 210 meginefnum sem leitað var að, þá var að finna í hverjum sjálfboðaliða í rannsókninni að meðaltali 91 aðskotaefni, blöndu af iðnaðarefnasamböndum, mengunarvöldum og öðrum kemískum efni - þar á meðal PCB, algeng efni úr skordýraeitri, díoxín, kvikasilfur, kadmíum og benzene leysiefni, svo nokkur séu nefnd. Þessi ofgnótt efna hafði safnast saman í líkömum þessara einstaklinga í gegnum almenna og skammvinna nálægð við þessi efni, líkt og við verðum öll fyrir í lífi okkar. Enginn þeirra sem þátt tók í rannsókninni hafði komið nálægt kemískum efnum í starfi sínu og enginn hafði búið nálægt iðnaðarverksmiðju. Samt var að finna í blóði allra að minnsta kosti 53 kemísk efni sem þekkt eru fyrir að bæla ónæmiskerfi líkamans.

Blóðið er lífsvökvi líkamans og þegar það er mengað, mengast líkaminn og það hefur áhrif á heilsufar okkar. Við getum á vissan hátt líkt þessu við árfarvegi á jörðinni, sem eru samskonar lífæðar og blóðið er líkama okkar og margir þeirra eru mjög mengaðir.

Nýfædd börn líka með mengað blóð
Árið 2004 var gerði svipuð rannsókn við Centers fro Disease Control and Prevention í Atlanta í Bandaríkjunum. Í henni var tekið blóð úr 2500 manns alls staðar að af landinu og fundust í því vottur af öllum þeim 116 kemísku efnum sem þeir leituðu að.  Rannsókn sem gerð var árið 2005 olli áfalli meðal eiturefnasérfræðinga. Vísindamenn sem unnu við tvær stórar rannsóknastofur fundu ógnvekjandi kokteil 287 iðnaðarefnasambanda og mengunarvalda í blóði úr naflastreng tíu nýfæddra barna, en blóðsýnin voru tekin af Rauða krossinum í Bandaríkjunum. Þessi efni voru meðal annars meindýraeitur, þalöt (notuð í snyrtivörur), díoxín, eldtefjandi efni og niðurbrotin efni út Teflon, auk annarra kemískra efna sem vitað er að valda skaða á ónæmiskerfinu.

Skömmu eftir þessa rannsókn komu rannsóknaraðilar í Hollandi fram með svipaðar niðurstöður, því þeir fundu safn af kemískum efnum sem yfirleitt eru í hreinlætisefnum fyrir heimilið, í snyrtivörum og húsgögnum í blóði úr naflastreng þrjátíu nýfæddra barna.

Heimildir: The Autoimmune Epidemic eftir Donna Jackson Nakazawa