Guðrún Bergmann - haus
Þú ert hér: Guðrún Bergmann > Súperfæða
15. september 2013

Súperfæða

organic_burst.jpgÁ undanförnum árum hefur orðið súperfæða fest sig í sessi í orðaforða landsmanna. Þegar rætt er um súperfæðu er yfirleitt verið að ræða um fæðu sem er sérlega rík af andoxunarefnum sem verja ónæmiskerfi líkamans og hjálpa frumunum til að endurnýja sig. Best er ef súperfæðan er lífrænt ræktuð og ég tala nú ekki um, sé hún unnin samkvæmt ýtrustu stöðlum um hráfæði, því það þýðir að hún hefur ekki verið hituð og inniheldur því alla sína orku óumbreytta.

Súperfæðan er mjög oft í duftformi og þá tilvalin út í bústið sem margir hafa gert að morgunverði sínum eða millimálsverði. Ég hef verið dugleg við að borða bláber undanfarin ár, en komst nýlega að því að í acai berin eru mun ríkari af andoxunarefnum. Berin vaxa á pálmum og vísindalegar rannsóknir hafa sýnt fram á að í þeim er magn ORAC andoxunarefnisins 167, samanborið við 32 í bláberjum. Acai hjálpar okkur að hægja á öldrun líkamans.

Önnur súperfæða sem margir hafa sótt í eftir að farið var að selja hana hér á landi er maca. Maca er unnið út jurtarót sem vex í um 4000 metra hæð yfir sjávarmáli í Andesfjöllunum. Í fyrra þegar ég var í Perú, vann ég í borginni Arequipa með kvenkyns staðarleiðsögumanni. Eitt það fyrsta sem hún sýndi mér, svona um leið og við keyptum kókalauf til að tyggja til að forðast hæðaveiki, var poki af maca-dufti. Hún sagðist nota maca á hverjum degi út á morgunmatinn sinn og færi því létt í gegnum tíðahvörfin. Maca-rótin kemur einmitt jafnvægi á hormónabúskap líkamans, hvort sem er hjá konum eða körlum. Hún er einnig góð til að auka kynhvötina og bæta frjósemina og dæmi eru um að pör sem ekki hafi getað eignast börn, takist það eftir að hafa tekið inn maca-rótarduft um tíma.

Í Organic Burst línunni, sem fæst nú víða í heilsuvöruverslunum, er hægt að finna bæði acai og maca-duft, en einnig spirulina, sem unnið er úr ferskvatnsþörungum sem geyma nær öll lífsnauðsynleg næringarefni fyrir líkamann, hveitigras sem er afar hreinsandi og baobab, sem er ríkt af C-vítamíni, meltingargerlum og fosfór - en tréð sem sá ávöxtur vex á er almennt kallað tré lífsins. Allar vörur frá Organic Burst eru lífrænt vottaðar og innihaldið er unnið samkvæmt ýtrustu stöðlum um hráfæði.