Guðrún Bergmann - haus
21. september 2013

Það sem við ekki sjáum

new_picture.pngÉg hef oft sagt í gríni - og kannski dálítilli alvöru - að ég vildi óska þess að framan á líkama mínum væri rennilás, sem ég gæti annað slagið rennt niður til að kanna ástand líffæranna. Mér hefði örugglega oft brugðið í gegnum tíðina ef ég hefði getað gert það, því við tengjum oft ekki það sem er að gerast innra með okkur við ýmsa líkamlega vanlíðan. Við getum litið út fyrir að vera nokkuð hress, haft góða hreyfigetu, en kannski verið með höfuðverk nokkuð oft, útþaninn kvið, verið að drepast úr vöðvabólgu - og ekki gert okkur grein fyrir því að orsök þessara einkenna kviknar í meltingarfærum okkar.

Allur matur er eldsneyti fyrir líkamann og sem eldsneyti ætti hann að meltast við bruna. Við blöndum hins vegar ótrúlegum aragrúa af matvælum saman, svo oftar en ekki situr maturinn í meltingarfærum okkar og rotnar. Candida albicans er gersveppur sem styðja á við örveruflóru líkamans. Við ákveðnar aðstæður getur hann breyst í myglusvepp, sem myndar þræði eða rætur sem festast við ristilvegginn. Þessir þræðir losa ensím og brjóta niður nærliggjandi frumur og nærast á þeim. Við það geta myndast göt á slímhúðina og of stórar fæðuagnir komast út í blóðið þar sem þær hafa skaðleg áhrif sem geta leitt til heilsufarsvandamála eins og ofnæmis, síþreytu og iðrakveisu, með tilheyrandi óþægindum og ertingu í meltingarveginum. Þegar candida gersveppurinn er orðinn að myglusveppi, skilar hann frá sér mycotoxin eða „sveppaeitri" sem er eitraður úrgangur, sem gerir umhverfi ristilsins basískt, en ef góðu bakteríurnar eiga að lifa þar þurfa þær frekar súrt umhverfi eða pH 5-6. Í of basísku umhverfi verður minna blóðflæði til svæðisins og þekjufrumurnar fá minna súrefni, en súrefnissnautt umhverfi er kjörumhverfi fyrir candida til að fjölga sér.

Candida umbreytist í myglusvepp við ofnotkun á hvítu hveiti, sykri, ávöxtum, áfengi, sýklalyfjum og geri. Auk þess getur streita haft mikil áhrif á þetta líkamlega ástand, því undir streituálagi dregur úr blóðflæði til meltingarvegarins og blóðið streymir í staðinn til höfuðs og útlima vegna adrenalínáhrifa. Gera má ráð fyrir að allir bólgusjúkdómar í meltingarveginum spretti upp úr þessu ástandi og geti í raun dreift sér til annarra svæða líkamans.

Til að bæta ástandið í þörmunum og losna við candida myglusveppinn þarf að taka það sem honum veldur úr neyslu, vinna að því að hreinsa ristilinn og taka inn efni eins og Acidopyllus (nokkrar mismunandi gerðir til), Bio Cult Candea eða Grapeseed extract til að koma jafnvægi á þarmaflóruna. Jafnframt er gott að taka inn 1-2 teskeiðar af kókosolíu á dag, því caprillin sýran í olíunni drepur myglusveppinn. Þetta og ýmislegt fleira kemur fram á námskeiðum sem ég held, þar sem ég kenni fólki að takast á við bólgur og liðverki á náttúrulegan máta. 

Heimildir: Candida sveppasýking eftir Hallgrím Þ. Magnússon lækni og Guðrúnu Bergmann
og Betri næring - betra líf eftir Kolbrúnu Björnsdóttur grasalækni.