Guðrún Bergmann - haus
13. október 2013

Svartur, litaður eða hvítur

mandela_born_pe.jpgÉg kom frá Suður Afríku í gær. Var á ferð um landið sem fararstjóri fyrir hóp á vegum Bændaferða. Hafði áður verið þarna á ferð á eigin vegum, en ekki verið í jafn miklu samneyti við innfædda þá. Samvinna við innlendan leiðsögumann og aðra innfædda sem ég kynntist opnaðir augu mín fyrir ótal mörgu sem að samfélaginu og landinu snýr, eins og alltaf gerist.

Suður Afríka er stórbrotið land, sem býr yfir ótrúlegri fjölbreytni, ekki bara hvað varðar landslag, gróðurfar og dýralíf, heldur einnig mannlífið. Fjölbreytileiki íbúanna er mikill, því í landinu búa ekki færri en 9 þjóðarbrot svartra, sem hafa þróast þar allt frá því San fólkið bjó fyrir 20.000 árum í syðsta hluta landsins í hellum, en litið er á það sem upphafsfólk alls mannkyns. Viðurkennd tungumál eru ellefu. Það leiðir til vandamála, meðal annars á vinnumarkaði, að ekki hefur verið valið sameiginlegt tungumál, því auk allra tungumála þjóðarbrotanna, talar fólk líka ensku og afrikans.

Áfram apartheid?
Ekki er hægt að koma til landsins án þess að fjallað sé um aðskilnaðarstefnuna eða apartheid, eins og hún kallast á afrikans tungumálinu. Árið 1948 kom til valda í landinu ríkisstjórn sem ákvað að aðgreina á milli hvítra, þ.e. þeirra sem höfðu komið frá Evrópu og hinna svörtu og lituðu, en þeir lituðu töldust vera þeir sem voru blanda af hvítum og svörtum, voru af malasískum eða kínverskum uppruna eða bara ekki nægilega hvítir á húð til að teljast til hinna útvöldu. Aðskilnaðurinn varð ekki bara milli hvítra og svartra, heldur einnig milli allra þjóðarbrotanna sem fylltu litaða flokkinn. Gefin voru út nafnskírteini sem fólk þurfti að ganga með á sér allan sólarhringinn, til að sanna litarhátt sinn. Árið 1963 tók stjórnin sig svo til og hreinsaði til í stórborgum eins og Jóhannesarborg og Höfðaborg og lögregla flutti svarta og litaða nauðuga frá heimilum sínum til kofahverfa eins og Soweto í Jóhannesarborg og Cape Flats í Höfðaborg.

Reglur um aðskilnað féllu ekki úr gildi fyrr en eftir að Mandela losnaði úr fangelsi árið 1991. Horft er til hans sem þjóðhetju og myndir af honum, styttur og tilvitnanir úr ræðum hans og riti sjást um allt í landinu. Eftir að hann varð forseti árið 1994 setti hann reglur sem segja að svartir og litaðir skuli hafa forgang í öll störf og til náms í öllum almenningsskólum. Það þýðir í raun að gagnvart hvíta manninum ríkir nú sama aðskilnaðarstefna og ríkti gagnvart hinum svörtu og lituðu áður fyrr, því nú eru það þeir sem ekki fá störf vegna litarháttar síns.

Þjóðhetjan Mandela
Nelson Mandela var fyrsta barnið í sinni fjölskyldu til að ganga menntaveginn. Daginn sem skólagangan hófst klippti faðir hans neðan af buxum af sér, setti drenginn í þær og batt þær uppi með snæri í mittið. Þetta voru fyrstu buxurnar hans. Fram að þeim tíma hafði hann gengið í lendarskýlu vafinn í teppi eins og aðrir af Xhosa þjóðflokknum. Kennslukonan gat ekki borið fram nafn hans sem var Rolihlahla og kallaði hann því Nelson, sem festist við hann.

Mandela var á margan hátt afar magnaður stjórnmálamaður og vissi hvert hann stefndi með líf sitt, án þess að aðrir hafi gert sér grein fyrir því. Árið 1952 á hann að hafa sagt að „einn góðan veðurdag verð ég forseti þessa lands", og það stóðst þótt það liðu 42 ár þangað til og að hann sæti í 27 ár af þeim tíma í fangavist á Robben Island. Þetta sýnir að stundum tekur langan tíma fyrir markmiðin að verða að raunveruleika, en jafnframt að það þarf að stefna stöðugt að þeim til að ná þeim.

Menntunarskortur
Mandela sagði árið 1995: „Við getum ekki kennt öðrum um vandamál okkar. Við eru ekki fórnarlömb útlendinga sem streymdu til Suður Afríku."

Þrátt fyrir það kenna margir svartir Suður Afríkubúar hvíta manninum um félagslega stöðu sína. Menntun meðal þeirra hefur eitthvað aukist síðan Mandela tók við sem forseti árið 1994, en þó ekki í samræmi við það að 20% af þjóðartekjum renna til að efla hana. Margir falla úr skóla eftir eitt ár í námi, fall svartra í samræmdum prófum er allt að 70% og þeir fá oft lítinn stuðning að heiman, því foreldrarnir eru í flestum tilvikum ómenntaðir og gera sér ekki grein fyrir mikilvægi námsins.

Í skugga sjúkdóma
Meðalaldur Suður Afríkubúa hefur hrapað úr 60 árum árið 1990 niður í 49 ár árið 2012 og kemur þar helst til að hlutfall HIV smitaðra er hátt eða rúmlega 17% allra íbúa. Mbeki sem tók við forsetaembættinu á eftir Mandela vildi hvorki vita af HIV, né heldur vinna í að fá lyf eða auka fræðslu um sjúkdóminn. Skortur á menntun, eiturlyfja- og áfengisneysla og sú hjátrú að menn læknist af HIV með því að hafa samfarir við ung börn er slæm blanda. Nýlega var karlmaður í Jóhannesarborg dæmdur fyrir að hafa samræði við 10 mánaða dóttur sína, en hann hafði í huga að lækna sjálfan sig af HIV. Meðal íbúa í fátækrahverfunum eru berklar einnig algengir og margir deyja af þeirra sökum.

Fólkið í Suður Afríku á enn langt í land með að móta heilbrigt og vel starfandi samfélag, en auðæfi landsins eru mikil hvort sem eru í gulli, demöntum, járni, kolum eða öðrum vinnanlegum steinefnum.

Myndin: Haldið í höndina á „Mandela" og afrískum börnum í Donkin Reserve í Port Elizabeth.