Guðrún Bergmann - haus
17. október 2013

Allt til að halda reisn

nash_ii.jpgEitt af því sem náttúru- og umhverfisverndarsinnar leggja ríka áherslu á er að vernda líffræðilegan fjölbreytileika á jörðinni, en vegna loftslagsbreytinga eiga ýmsar tegundir það á hættu að deyja út, meðan aðrar færa búsvæði sín til nýrra landsvæða, yfirleitt vegna þess að hitastig hækkar.

En það er fleira en loftslagsbreytingar sem ógna líffræðilegum fjölbreytileika. Mennirnir sjálfir stunda veiðar, í mörgum tilvikum veiðiþjófnað, á dýrum sem nú eru í útrýmingarhættu. Í öllum þjóðgörðum Suður Afríku blasa við auglýsingar þar sem fólk er hvatt til að vernda tegundir eins og nashyrninga, villta hunda og blettatígra, því þessum dýrum fækkar ört, einkum vegna veiðiþjófnaðar. Landverðir í görðunum segja að veiðiþjófnaðurinn aukist ár frá ári. Í fyrra voru um 600 nashyrningar drepnir í þjóðgörðunum en í byrjun október var talan komin upp í 706 nashyrningar. Um 380 þeirra hafa verið skotnir í Kruger þjóðgarðinum.

Spor í sandi
Erfitt er að takast á við veiðiþjófana. Þeir leynast jafn vel í gróðrinum og dýrin sjálf, sem oft er erfitt að koma auga á. Þeir eru búnir hátæknibyssum með nætursjónaukum og hljóðdeyfum og þegar þeir hafa skotið nashyrninginn skera þeir af honum hornið og hverfa svo á braut, jafn hljóðlaust og þeir komu og leyfa dýrinu að liggja eftir og blæða út.

Þegar hluti af hópnum frá Bændaferðum sem ég var fararstjóri fyrir var í safarí-ferð um Kruger, fann leiðsögumaður þeirra spor í sandinum, þar sem gangandi umferð er yfirleitt ekki leyfð. Þau voru eftir tvo einstaklinga, annan í skóm, hinn berfættan. Breiddar voru greinar yfir þau, meðan allt tiltækt lið var kallað út til að leita að áætluðum veiðiþjófum.

Dýrara en gull og kókaín
Veiðiþjófnaðurinn er stundaður í hagnaðarskyni, því þótt sá sem skýtur dýrið fái kannski ekki jafnmikið og sá sem endanlega selur duft úr horninu á Asíumarkaði, fær hann samt töluverðar tekjur fyrir áhættuna. Landverðir hafa orðið varir við að sumir efnast skyndilega og á óútskýranlegan hátt í nágrenni við Kruger, þótt erfitt sé að tengja þann ábata við drápin. Svo má líka alltaf kenna Mosambíkmönnum um, en landamæri þess lands liggja að Suður Afríku við Kruger þjóðgarðinn.

Sagan segir að á undirheimamörkuðum fáist 65.000 dollarar fyrir hvert kíló af horninu og meðalþyngd á nashyrningshorni er 5 kíló. Þessi upphæð er hærri en sú sem fæst fyrir kíló af gulli eða kókaíni. Hornið er þó ekki selt í heilu lagi, heldur er það mulið í duft og tekið inn af karlmönnum í Asíulöndunum, til að þeir geti haldið fullri reisn í ástarleikum sínum. Meðan þeir telja það mikilvirkara meðal en Viagra, heldur nashyrningum áfram að fækka og fjölbreytileiki í dýralífinu minnkar.

Ljósmynd: Úr safni höfundar