Guðrún Bergmann - haus
16. nóvember 2013

Löggilding blómabarna

canstockphoto10574856.jpgUndanfarið hef ég stundum leitt hugann að því hvernig eldri borgarar mín kynslóð verði, enda ekki óeðlilegt þar sem ég er komin yfir sextugt. Við erum byltingarkynslóðin sem fór að hlusta á Bítlana í kringum fermingaraldurinn, hættum að halda utan um hvort annað þegar við dönsuðum, nema bara í vangadansi, og dönsuðum „sjeik" á skólaböllunum, sem gerði það að verkum að jafnvel hinir taktlausustu urðu meiriháttar dansarar. Við dáðumst að Stones á þeim tíma sem breskar húsmæður völdu Mick Jagger, í könnun Melody Maker tímaritsins, þann sem þær vildu síst fá sem tengdason. Við klæddumst „mini" pilsum, mittisjökkum, buxum með útvíðum skálmum og skyrtum í ýmsum litum, eftir að Karnabær opnaði árið 1966 og leysti okkur á einni nóttu undan þeirri áþján að líta út eins og litlir „karlar og kerlingar" bara af því það var búið að ferma okkur. Við vorum kölluð táningar, en það var nýtt heiti á þessu aldursskeiði.

Við lærðum öll bítlalögin utanað og sungum með, hvort sem var heima eða á böllum. Allir strákar vildu vera í bandi og meika það. Þeir létu hárið síkka og gengu í hælaskóm, svo jafnvel þeir lágvöxnustu urðu háir og spengilegir. Í kringum 1967-´68 tók hippakynslóðin við með sínum byltingarkenndu hugmyndum og menn létu hárið síkka enn frekar, gengu í mussum og litskrúðugum fatnaði með hárband og stunduðu frjálsar ástir. Ýmsir fóru út í neyslu eiturlyfja, undir því yfirskini að því fylgdi svo mikill „friður", því í vímunni elskaðirðu alla. Led Zeppelin hélt tónleika hér á landi og Hárið var sett upp í Glaumbæ, sem síðar „...brann..." eins og Dúmbó og Steini sungu um, og leikarar dönsuðu naktir á sviðinu. Sumir gáfu skít í „kerfið", gengu í lopapeysum og töldu flott að vera vinstri sinnaðir og lítill hópur fylgdi þeirri fyrirmynd erlendis frá að stofna kommúnur. Hvað sem við völdum að gera, varð heimsmynd okkar allt önnur en foreldra okkar og kynslóðanna þar á undan.

Því er varla hægt að vænta þess að blómabörnin mæti á dansleik hjá Félagi eldri borgara á sunnudagseftirmiðdögum til að dansa gömlu dansana, kannski fyrst og fremst vegna þess að fæstir kunna þá. Fáir af þessari kynslóð munu stytta sér stundir með því að spila vist eða bridge, heldur liggja yfir tölvuleikjum, hvort sem er á fartölvum eða spjaldtölvum - eða kannski bara í símanum. Þessi aldurshópur mun líka vera með Facebook síðu og kannski líka koma sér upp Twitter-síðu, sem þarf stöðugt að vera að uppfæra. Hluti hans mun vilja halda áfram að sækja ræktina, taka þátt í maraþonhlaupum eins lengi og hægt er eða láta duga að ganga um alla borg til að halda styrk og liðleika.

Fjallað hefur verið um það í fjölmiðlum að eitthvað sé um áfengisvandamál hjá fólki sem nú er á dvalarheimilum aldraðra hér í borg. Hjá minni kynslóð má kannski frekar gera ráð fyrir því að menn séu enn að reykja hass eða jafnvel háðir öðrum og sterkari efnum - eða þá þeir séu búnir að fara í meðferð. Hver sem staðan er styttist alla vega í að stóru hluti af blómabarnakynslóðinni verði „löggild gamalmenni". Spurningin er hvort „kerfið" sé tilbúið til að taka á móti þeirri löggildingu blómabarnanna?