Guðrún Bergmann - haus
3. desember 2013

Hjartað og buddan

Síðastliðinn laugardagsmorgun vaknað ég snemma, full af framkvæmdakrafti, sem reyndar nýttist mér allan daginn. Fyrsta verkefnið var að dreifa bókum í verslanir og ég var lögð af stað áður en búið var að opna þær sem eru í verslunarmiðstöðvunum. Ekki var mikil umferð þetta snemma dags og kannski var það þess vegna sem ég hlustaði einkar vel á texta jólalaganna sem ómuðu á Léttbylgjunni. Margir eru þeir við erlend lög og ég dáðist að þeim einstaklingum sem höfðu samið svona fallega texta við þau. Allir voru þeir á jákvæðum nótum, fullir af væntingum og tilhlökkun og löngun til að gera öðrum gott - og það er einmitt á þessum árstíma sem við fyllumst þessum tilfinningum.

Því er mjög eðlilegt að við séum frekar gjafmild og höfum löngun til að gleðja aðra í tengslum við jólahátíðina. Þess vegna reiðum við gjarnan fram peninga til að styrkja ýmis góðgerðarsamtök í desember og kaupum gjafir í pakka undir jólatrén í verslunarmiðstöðvunum, svo einhver sem við þekkjum ekkert geti notið þess að fá gjöf. Við kaupum miða á jólatónleika, leggjum ýmsum söfnunum lið, kaupum gjafir handa þeim sem okkur þykir vænt um og skreytum heimili okkar til að við sjálf og aðrir megi njóta þess og svo má lengi telja.

Sama hvað hver segir um markaðsvæðingu jólanna, er ljóst að við sem erum neytendur nýtum okkur þær vörutegundir sem á boðstólum eru og kaupum bæði góðan mat og gjafir. Svo er alltaf stutt í þá minningu í huga okkar að fyrir jólin eigi allir af fá einhverja nýja flík, svo þeir fari ekki í jólaköttinn. Stundum förum við aðeins fram úr okkur sjálfum og verðum of örlát - en væntanlega er það gert af góðum hug.

Segja má að við opnum bæði hjartað og budduna upp á gátt á þessum árstíma.