Guðrún Bergmann - haus
10. janúar 2014

Hvert fer súkkulaðið?

vivani.jpgMargir myndu nú svara þessari spurningu á þann veg að súkkulaðið færi beint á mjaðmirnar - og í mörgum tilvikum er það rétt - það er að segja ef um mjólkursúkkulaði er að ræða. En ég var nú eiginlega ekki að velta því hvert það fer í líkama okkar, heldur vaknaði þessi spurning þegar ég kom í einn stórmarkaðinn til að sækja eintök af STÍGUM FRAM, sem eftir voru þegar bóksölu jólanna lauk. Í slíkum tilvikum fær maður að fara lagermegin inn. Við mér blasti stafli af konfektkössum, sem verið var að senda til baka til framleiðanda og þá velti ég fyrir mér hvert fer súkkulaðið.

Skyldu þessir konfektmolar eiga eftir að rata í páskaeggin eftir nokkra mánuði, var ein af þeim spurningum sem komu upp í hugann.

En af því ég er farin að tala um súkkulaði, er ekki úr vegi að halda umræðunni aðeins áfram. Munurinn er nefnilega mikill á milli mjólkursúkkulaðis sem er hlaðið sykri og dökks súkkulaðis, sem sætt er með öðrum sætuefnum en sykri. Heilsugúrúinn David Wolfe fjallar meðal annars um eiginleika súkkulaðis í bók sinni Naked Chocolate. Hann kallar kakó (dökkt súkkulaði) ofurfæðu og talar um ágæti þess fyrir heilsuna, meðal annars að það hafi góð áhrif á taugakerfi líkamans.

Ég get nú ekki sagt að ég hefi sannreynt allar staðhæfingar hans um lækningarmátt kakóbaunarinnar, en ég veit að dökkt súkkulaði hefur allt önnur áhrif á mig en mjólkursúkkulaði. Borði ég mjólkursúkkulaði fell ég beint í sykurfíknisgildruna og get ekki hætt fyrr en pakkinn er búinn. Borði ég dökkt súkkulaði, til dæmis frá Vivani - en trönuberjasúkkulaðið frá þeim er í miklu uppáhaldi hjá mér - get ég hæglega fengið mér einn mola og látið það duga.

Hvert súkkulaðið sem þú borðar fer er áfram spurning, en það fer örugglega betur í þig ef það er dökkt.