Guðrún Bergmann - haus
9. febrúar 2014

Beiskur, beiskari

Þegar Louise L. Hay skrifaði fystu bók sína The Body, kom hún fram með kenningar sem voru nokkuð nýstárlegar. Þær fjölluðu um það að tilfinningar okkar hefðu áhrif á líkamlega líðan okkar og að þær gætu orsakað ástand í líkamanum sem gæti síðan leitt til misalvarlegra sjúkdóma.

Í næstu bók hennar, sem kom fyrst út á íslensku árið 1990 undir heitinu Hjálpaðu sjálfum þér, varð textinn út litlu bókinni hennar The Body að einum kafla, þar sem farið er yfir það hvernig mismunandi tilfinningar okkar tengjast hinum ýmsu hlutum líkamans. Hjálpaðu sjálfum þér er ein af þessum bókum sem hefur elst vel. Hún var gefin nokkrum sinnum út á sínum tíma, því hvert upplag fyrir sig seldist jafnóðum upp. Síðasta var hún gefin út árið 1998 af forlagi sem ég og eiginmaður minn heitinn áttum og hét Leiðarljós. Bókin er löngu uppseld, en hana má þó væntanlega finna í bókaskápum víða um land.

En ég ætlaði nú ekki að fjalla um Louise og bækur hennar í þessum pistli mínum, heldur þá staðreynd að margar konur lenda í ýmis konar vandamálum með gallblöðruna, en þar er beiskjan í lífi okkar talin setjast að. Oft myndast gallsteinar en Louise segir þá einmitt verða til af beiskju, illum þönkum, fordæmingu og stolti. Til að breyta þankagangi okkar og tilfinningum leggur hún til þessa staðfestingu: Það er ljúft að láta fortíðina róa. Lífið er ljúft og ég líka.

Stundum er samt gott að nota stuðningsefni með staðfestingunum, eins og til dæmis Gallexier, sem er safi frá Floradix. Hann örvar starfsemi gallblöðrunnar og hjálpar til við meltingu fæðunnar. Hann má fá í flestum heilsuvöruverslunum og lyfjabúðum. Þeir sem vilja svo hreinsa beiskjuna enn betur út geta kíkt á bók Andreas Moritz, The Liver and Gallbladder Miracle Cleanse, en í henni er að finna upplýsingar um hvernig hreinsa megi bæði lifur og gallblöðru.