Guðrún Bergmann - haus
17. apríl 2014

Umbúðasamfélagið

vegware_soupcontainers_1204_ice_cream_triple_whammy_800x.jpgVið búum í ótrúlegu umbúðasamfélagi. Öllu er pakkað í svokallaðar neytendapakkningar sem við förum með heim og þurfum síðan að flokka og skila til endurvinnslu. Ég hef flokkað sorp í rúmlega tuttugu ár og eftir því sem endurvinnsluflokkum fjölgar, minkar hið almenna sorp hjá mér. Stundum er svo lítið af því að ég þarf að henda hálffullum poka, svo sorpið fari ekki að lykta.

Ég er ein í heimili og undra mig á öllu því magni af plastbökkum, plastbrúsum og plast... hvað sem það nú kallast sem fellur til hjá mér og reyni ég samt að forðast plastumbúðirnar. Í sjónvarpinu var nýlega  fjallað um það af hverju öllu er pakkað svona dyggilega inn og skýringin sögð sú að það sé gert af hreinlætisástæðum.

Gott og vel, en það eru til aðrir valkostir. Ég rakst nýlega á bækling frá Ræstivörum, með myndum af fjölda umbúða sem allar eru unnar úr náttúruafurðum og brotna því niður í safnkassanum. Þar er að finna drykkjarmál, súpubox, kökubox, hnífapör, samloku-, matar- og pizzukassa og margt fleira. Ég fletti Vegware upp á netinu og sá þar að fyrirtækið hefur fengið fjölda verðlauna og er í 160. sæti yfir þau fyrirtæki sem vaxa hraðast í Evrópu, Miðausturlöndum og Afríku. Fyrirtækið sem er enskt hefur hlotið fjölda viðurkenninga og ekki skaðar að ein þeirra skuli vera frá drottningunni sjálfri.

Við eigum því auðveldlega að geta fækkað plastumbúðunum.

Facebook fyrir GRÆNAN APRÍL
Heimildir: www.vegware.com