Guðrún Bergmann - haus
22. apríl 2014

Dagur Jarðar 2014

10013358_10202228513129271_1957361591_n.jpgÍ dag, 22. apríl, fagnar allt að einn milljarður manns víða um heim alþjóðlegum DEGI JARÐAR í fertugasta og fjórða sinn. Þegar áhugamannasamtök í Bandaríkjunum, stóðu fyrir þessari vitundarvakningu fyrst árið 1970 tóku 20 milljón manns þátt í henni, sem þá var einn tíundi hluti þjóðarinnar. Árið 1971 undirritaði svo U Thant aðalritari Sameinuðu þjóðirnar yfirlýsingu um að þessum dagi skyldi fagna sem DEGI JARÐAR. Í ár er hann tileiknaður grænum borgum. Umhverfisráðuneyti Bandaríkjanna hefur tekið málefnið upp á sína arma og birtir daglega ýmsar leiðbeiningar sem snúa að því á hvaða hátt hægt er að spara orku og draga úr mengun.

Hér á landi hafa það aðallega verið samtökin Grænn Apríl sem hafa hvatt til slíkrar vitundarvakningar í aprílmánuði og stóðu meðal annars fyrir viðburði tengdum Degi Jarðar í Háskólabíói í fyrra. Erfiðlega hefur gengið að fá almenna þátttöku í kringum þennan dag hér á landi, þótt Jörðin sé svo sannarlega búsetusvæði okkar allra.

Eitt fyrirtæki brýtur blað í sinni sögu þetta árið, en það er Edda útgáfa sem gefur í  þessum mánuði hér á landi út bókina "Verum græn", sem fjallar fyrst og fremst um sjálfbærni og hugmyndafræði í kringum það hugtak. Bókin kemur hins vegar út í Canada og Bandaríkjunum í dag 22. apríl, undir heitinu Disney Go Green og er staðfærð fyrir amerískan markað með Disney teikningum.  

Bókin er hugsuð fyrir börn á grunnskólaaldri og fjölskyldur þeirra.  Hún er aðgengileg öllum, hvort sem það eru lesendur sem þekkja ekki hugtakið sjálfbærni eða lesendur sem þegar hafa tileinkað sér grænan lífsstíl. Í bókinni er lögð áhersla á að útskýra hugmyndina um sjálfbærni á einfaldan og skemmtilegan hátt og setja hana í skiljanlegt samhengi fyrir börn og fjölskyldur ásamt einföldum leiðum til að tileinka sér grænan lífsstíl. Bókin er full af skemmtilegum ráðleggingum og staðreyndum um sjálfbærni og hún sýnir lesendum að það er mun einfaldara og léttara að tileinka sér sjálfbærar venjur en við höldum.

Höfundar bókarinnar eru Ásthildur B. Jónsdóttir, Ellen Gunnarsdóttir og Gunndís Ýr Finnbogadóttir  Til hamingju Edda eignarhaldsfélag með áfangann.

Heimildir: http://environment.about.com/od/environmentalevents/a/twoearthdays.htm

http://www.un.org/en/events/motherearthday/