Guðrún Bergmann - haus
30. apríl 2014

Ótakmarkað magn

lovefoodheading.jpgÍ tæp tuttugu ár hef ég unnið á einn eða annan hátt að ferðaþjónustu. Þetta er skemmtileg og krefjandi atvinnugrein, en jafnframt ein af þeim sem mengar hvað mest. Mikil kolefnislosun verður af ferðalögum í flugvélum og bílum, á mótórhjólum og fjórhjólum, vélsleðum og sæköttum svo eitthvað af þeim farartækjum sem tengjast atvinnugreininni séu nefnd. Þar með er reyndar mengunin ekki upptalin, því mikið mengast líka vegna alls þess þvottar og hreingerninga sem fylgja ferðaþjónustu.

Svo er líka mengun sem við tökum sjaldnast eftir, en hún tengist allri þeirra megnun sem verður vegna sóunar á mat. Diskur eftir disk hverfur af borðum ferðamanna á hótelum og veitingastöðum með matarleifum sem fara í ruslið. Fæst hótel eru með safnhaug, svo þessi matur er ekki notaður til moltugerðar, heldur er hann urðaður með öðru sorpi. Þarna fer mikið hráefni til spillis og mikið af dýrum hefur verið alið upp og deytt til að framreiða mat sem við leifum svo, en allt það framleiðsluferli leiðir til mengunar.

Ég sat fyrir skömmu og ræddi þetta við samstarfsfélaga og hann kom með góðan punkt. "Ef fólk ætti hænur, myndi það ekki slátra fimm kjúklinum, borða svo einn og henda fjórum...", en það er í raun það sem við gerum með því að leifa og fara illa með mat.

Þegar þessi umræða kemur upp á borðið dettur mér oft í hug skilti sem ég rakst á í Best Western hóteli í Kingman í Bandaríkjunum. Það var við morgunverðarborðið og á því stóð: "Þú mátt fá þér eins mikið og þú vilt, en vinsamlegast borðaðu það sem þú færð þér!"

Magnið var ekki takmarkað, en hvatt til þess að það væri allt nýtt. Gott að enda pistlaflokkinn tengdan GRÆNUM APRÍL á þessum hugleiðingum, því þetta takmarkaleysi okkar tengist líka Jörðinni. Við erum sífellt að taka meira af henni en við þurfum.