Guðrún Bergmann - haus
4. júní 2014

Við kjósum alla daga

Sveitarstjórnarkosningum er nýlokið. Þátttakan í þeim var í algjöru lágmarki eða rúm 70% samkvæmt tölum sem ég fann á vef mbl.is. Ég furða mig á þessu, því frá því ég man eftir mér, var mér innrætt að það væri mikilvægt að nýta atkvæðisrétt minn og kjósa. Kjósa fólk til að fara með stjórn lands og sveitarfélaga, fólk sem ég myndi treysta til að taka ákvarðanir sem væru góðar fyrir heildina og myndu auka hag sem flestra.

Konur fengu fyrst kosningarétt hér á landi árið 1915 og þá voru það einungis konur 40 ára og eldri sem fengu að kjósa. Hinum yngri var ekki treyst fyrir atkvæði fyrr en síðar. Höfum við gleymt því hversu hatrammlega konur um allan heim börðust fyrir þessum rétti sínum? Rétti sem bæði karlar og konur njóta nú til jafns, að minnsta kosti í okkar landi, og sem var mikilvægur þegar við höfðum hann ekki.

Þrátt fyrir þennan rétt, virðist sem tæplega 30% kjósenda í dag treysti sér ekki til að fara með eigin atkvæði og nýta það til áhrifa. Atkvæði sem ekki er nýtt skilar engum árangri. Við "kjósum" hvort sem við greiðum atkvæði eða ekki. Hlutleysi er ekki til. Það er bara afsökun fyrir því að taka ekki ákvörðun.

Kjörklefinn er reyndar ekki eini staðurinn þar sem við kjósum. Við kjósum alla daga. Við kjósum hvort við erum með jákvætt eða neikvætt viðhorf til dagsins. Við kjósum hvort við leggjum okkur fram í starfi og leik eða ekki. Við kjósum hversu góð við erum hvort við annað, hvort við sýnum nærgætni í umgengni við aðra eða hranalegheit. Við kjósum hvað við kaupum, hvað við borðum, hvernig við verjum frítíma okkar.

Við erum alltaf að "kjósa" og einungis með því að beita atkvæðisrétti okkar á meðvitaðan hátt tökum við ábyrgð á vali okkar í hvert sinn sem við "kjósum".