Guðrún Bergmann - haus
15. ágúst 2014

Fæddist sá ríkasti of snemma?

Veist þú hverjir fimm ríkustu menn heims eru?

Þeir eru Carlos Slim Helu, Bill Gates, Amancio Ortega, Warren Buffett og Larry Ellisson. Ef þú myndir leggja auð þeirra allra saman myndi samt skorta nokkra milljarða bandaríkjadollara upp á að þeir næðu þeim auð sem ríkasti maður síðari tíma... J.D. Rockefeller aflaði sér.

Væru auðæfi hans uppreiknuð til dagsins í dag, myndi persónulegur auður stofnanda Standard Oil olíufélagsins vera í kringum 340 milljarðar dollara. Auk hinnar ótrúlegu velgengni Rockerfellers í olíuvinnslu, var hann einnig frumkvöðull í ýmis konar góðgerðar- og mannúðarmálum.

Rockerfeller notaði peninga sína, bæði í lifanda lífi og eftir dauða sinn, í að koma á fót og stækka háskóla, styrkja ýmsar læknisfræðilegar rannsóknir, útrýma skaðlegum sjúkdómum og veita blökkumönnum tækifæri til að mennta sig á tímum aðskilnaðarstefnu suðurríkjanna.

Hann var fyrsti Bandaríkjamaðurinn til að eiga persónulega eignir sem metnar voru yfir 1 milljarð dala og um tíma nam auður hans 1,53% af hagkerfi Bandaríkjanna.

Hugsanlega fæddist hann 100 árum of snemma - árið 1839 í stað ársins 1939. Maður með hans getu og undraverða sýn á framtíðina hefðir örugglega tekið Elli kerlingu traustataki og með rannsóknum lengt líf ótal margra. Ekki er þó hægt að segja að ellin hafi fellt hann of snemma, því á dánardegi hafði hann lifað í 97 ár og 10 mánuði. Hann var samt ekki alltaf heisluhraustur, því rúmlega fimmtugur hafði álag viðskiptalífsins og miklar pólitískar árásir á hann tekið sinn toll af heilsu hans.

Á þeim tíma sagði læknirinn hans honum að hann gæti orðið hundrað  ára ef hann myndi fylgja ákveðnum grunnatriðum. Hann lagði honum línurnar með þremur reglum:

1.     Stattu upp frá borðinu örlítið svangur (létt leið til að fækka kaloríum).
2.     Stundaðu fullt af líkamsrækt utandyra.
3.     Forðastu áhyggjur.

Sem sagt mataræði, líkamsrækt og streitustjórnun. Hljómar þetta ekki eins og þú hafi heyrt það áður?

Unnið er að ýmis konar rannsóknum sem auka lífslíkur okkar og á meðan við bíðum eftir  niðurstöðum úr þeim getum við tileinkað okkur hinar þrjár einföldu reglur J.D. og lengt þannig lífið og aukið lífsgæðin.

Þýtt og endursagt úr grein eftir David A. Kekich