Guðrún Bergmann - haus
18. september 2014

Reglur og reglur

Sumar reglur eru settar til að fara eftir þeim, aðrar ekki, eða svo virðist það að minnsta kosti vera hér í Tyrklandi. Get reyndar ekki alhæft fyrir landið, aðeins fyrir Marmaris og næsta nágrenni.

Það eru kannski aðallega umferðarreglurnar sem ég tek eftir, einkum þar sem ég ek hér um á svæðinu. Þegar ég benti samstarfsfélaga mínum á að hann væri að aka í öfuga átt á einstefnugötu sagði hann bara: "Tyrknekst fólk fer ekki eftir reglum" - og þegar horft er á umferðarmenninguna virðist það rétt.

Skellinöðrur er vinsæll fararmáti hér og víða má sjá foreldra með tvö börn á einni slíkri. Enginn er þó með hjálm, þótt settar hafi verið reglur um að börnin eigi að minnsta kosti að hafa slíka á höfði. Ferðamenn sem leigja sér fjórhjól fá hins vegar hjálm á hausinn, en það hefur væntanlega eitthvað með tryggingar og skaðabótaskyldu að gera.

Þeir sem aka skellinöðrunum taka annað hvort hægra eða vinstra megin fram úr bílum við umferðarljós, fara gjarnan yfir á rauðu og koma oft akandi á móti manni á öfugum vegarhelmingi - eða það finnst mér að minnsta kosti, þótt  þeim finnist það sennilega allt í lagi.

Bílar taka U-beygjur þar sem það er bannað, jafnvel beint fyrir framan lögreglustöðina og skipta um akgrein án þess að gefa stefnuljós, þótt það sé óbrotin lína á milli akgreina. Stefnuljós virðast svona yfir höfuð frekar lítið notuð hér.

Og jafnvel ég sem reyni nú almennt að fara eftir umferðarreglunum keyri annað slagið öfugum megin út af bílastæðinu við stórmarkaðinn þar sem ég versla. Reglurnar eru sem sagt líka hættar að eiga við um mig.