Guðrún Bergmann - haus
28. september 2014

Detox í 21 dag

Ég er búin að sitja alla helgina við að lesa mig til og læra um CLEAN detox-prógrammið, því mitt detox hefst á miðvikudaginn. CLEAN detox-prógrammið byggir á samnefndri bók eftir úrúgvæska lækninn Alejandro Junger, sem starfar í Bandaríkjunum. Meginmarkmið þess er að hjálpa líkamanum að afeitra sig á þremur vikum. Sumir léttast þegar þeir fara í svona detox, en það er ekki megintilgangur hreinsunarinnar. Hann er sá að hreinsa uppsöfnuð eiturefni úr líkamanum og gefa honum tækifæri á að lækna sig sjálfan.

Þótt allt prógrammið skipti máli, má segja að mikilvægast sé að halda tólf tíma regluna, það er að borða ekkert t.d. frá 7 að kvöldi til 7 að morgni. Það tekur líkamann 8 tíma að melta matinn og 4 tíma að vinna að því að losa hann við eiturefni, svo hann þarf sína 12 tíma í þetta.

CLEAN prógrammið er ólíkt öðrum detox prógrömmum sem ég hef notað, því þar má borða baunir, kjúkling, lambakjöt og fisk í einu "föstu" máltíð dagsins, sem er hádegisverðurinn. Á morgnana og kvöldin eru það búst eða súpur sem ég nærist á og ef mig langar í eitthvað milli mála, má ég næra mig á grænum djús, möndlum og ávöxtum og ýmsu öðru - og drekka rúma 2 lítra af vatni á dag.

Ég er með tvennan tilgang með þessu detoxi. Um tíma hef ég verið að taka inn lyf við vanvirkum skjaldkirtli, en vanvirkni hans má hugsanlega rekja til uppsafnaðra eiturefna í líkamanum. Annar tilgangur minn með detoxinu er því að sjá hvort lifrin (og auðvitað fleiri líffræi) hreinsist ekki við svona detox og hinn er að sjá hvort það leiði ekki til þess að auka virkni skjaldkirtlisins, svo ég geti hætt á lyfjunum. Ég er þegar byrjuð að trappa mig niður af þeim og hætti áður en detoxinu lýkur.

Ég hef oft áður farið í detox eða hreinsanir af ýmsu tagi. Þetta er þó í fyrsta sinn sem ég fer í detox í samráði við heimilislækninn minn, sem ætlar að fylgjast með mér og mæla gildin mín að detoxi loknu. Ég ætla að halda dagbók um ferlið og birta hana í pistlum mínum hér á Smartlandinu.