Guðrún Bergmann - haus
3. október 2014

Ég verð að viðurkenna

Ég verð að viðurkenna það. Ég hef ekki varið miklum tíma í eldhúsinu í sumar. Helst borðað salat eða eitthvað fljótlegt. Því kemur það mér þægilega á óvart að ég þarf að verja töluverðum tíma þar í tengslum við CLEAN detox-kúrinn, bara til að útbúa þessa einu máltíð sem ég elda mér á dag. Allar uppskriftir eru nýjar fyrir mér og það tekur smá tíma að safna saman því sem á að nota. Að auki eru flestar uppskriftirnar gerðar fyrir tvo svo ég þarf að deila í allt til að vera með réttan skammt fyrir einn.

En þetta gengur og ég er alltaf mett og líður bara vel. Það er smá áskorun að vera í svona detox-kúr á þessum árstíma, því ég borða bara eina heita máltíð á dag. Bústin sem ég drekk í morgun- og kvöldmat eru auðvitað köld, svo það er gott að teygja sig eftir sítrónu-/engifertei frá Yogi Tea til að hita líkamann á milli mála. Bataferlið í líkamanum er á fleygiferð og þessa stundina er ég aum niður eftir ristilrásinni í vinstri handlegg, alveg fram í þumalfingur.

Sumir hafa spurt um bætiefnin sem ég tek inn en þau eru Bio-Citrate Magnesíum og Zink, en ég tek inn einn skammt af þessum efnum þrisvar á dag. Svo tek ég inn Milk Thistle (mjólkurþistil) til að styrkja lifrina í að endurnýja frumurnar sínar og Oil of Oregano, sem er bakteríudrepandi. Þessi bætiefni eru frá Solaray og fást meðal annars í heilsuvöruverslunum eins og Lifandi markaði og Heilsuhúsinu, í ýmsum matvörumörkuðum og í lyfjabúðum. Að auki tek ég inn Super-B vítamín, meltingarhvata og fleira.

Helstu breytingar á líðan, aðrar en verkurinn í handleggnum eru þær að lærin hafa grennst, sem gerist alltaf þegar léttist á ristlinum og kviðurinn er ekki eins þaninn. Og ferlið heldur áfram...