Guðrún Bergmann - haus
4. október 2014

Hrósaði happi fullsnemma

Ég hrósaði víst happi fullsnemma í gær. Líkaminn tók magnaðan kipp í hreinsunarferlinu í nótt og ég lá andvaka í margar klukkustundir í þrotlausri baráttu við að draga úr verkjum í ristilrásinni í vinstri handlegg. Ég þræddi handlegginn upp og niður og nuddaði punktana á rásinni (vill til að ég kann smá fyrir mér í kínvesku orkubrautunum) milli þess sem ég drakk vatn, því ég var svo hrikalega þyrst. Hlýt að hafa drukkið 4 lítra af vatni síðasta sólarhring, en það er ráðlagt að drekka minnst 2 ½ lítra í CLEAN detoxinu.

Ég hef oft sagt í gríni (og alvöru) að ég sé eins og prinsessan á bauninni, finni fyrir öllu og það á svo sannarlega við um í dag. Ég er aum í öllum liðamótum og er með vægan höfuðverk, sem liggur yfir hnakka, gagnaugum og enni og finn fyrir þreytu. Því er ekkert annað í stöðunni en að setja í hægagír og taka lífinu rólega. Ekki alveg mín sterkasta hlið. Var með ótal margt á dagskrá um helgina sem nú verður lagt til hliðar, svo líkaminn geti jafnað sig. Dr. Alejandro Junger, höfundur CLEAN detox-prógrammsins segir reyndar að maður eigi að fara sér hægt þá daga sem verið er í hreinsuninni, því líkaminn þurfi alla orku sem hann fær í gegnum matinn til að afeitra sig. Hef ekki alveg farið eftir því, þar sem síðustu þrír dagar hafa verið ótrúlega annasamir.

Bústin verða bara grænni og magnaðri hjá mér, svo ég hlýt að vera að setja réttu hreinsiefnin fyrir líkamann. Ég blanda matseðlana mína með grænmetis- og kjötréttum og set hér uppskrift að frábærum grænmetisborgunum úr linsum og brúnum hrísgrjónum:

  • ½ bolli grænar linsur, skolaðar í köldu vatni
  • ½ bolli brún grjón - gott að láta þau liggja í bleyti fyrir eldun í a.m.k. 8 tíma til að losa sýruna úr þeim
  • 1 meðalstór laukur, skorinn smátt
  • 1 rifin gulrót
  • 4 marin hvítlauksrif
  • 3 teskeiðar malað cumin
  • 1 teskeið möluð salvía
  • 1 teskeið sjávarsalt
  • 1 ½ bolli vatn
  • 1 bolli grænmetiskraftur

Eldunarleiðbeiningar: Setjið linsur, brún grjón, lauk, gulrót, hvítlauk og krydd í meðalstóran pótt. Bætið við vatni og grænmetiskrafti. Setjið lok á pottinn, látið suðuna koma upp og sjóðið við lágan hita þar til grjón og baunir eru fullsoðnar eða í um 40 mínútur. Hellið öllu í sigti og síið allt vatn frá. Látið kólna aðeins og setjið í matvinnsluvél og maukið. Búið til 6 borgara. Steikið á pönnu í kókosolíu svona 4 mínútur á hvorri hlið. Berið fram með salati eða setjið í salatblað í stað hamborgarabrauðs.

Á morgun ætla ég að elda kjúkling í hádeginu og bjóða fjölskyldunni að njóta hans með mér.