Guðrún Bergmann - haus
7. október 2014

Eins og Superwoman

Í gær var ég frekar þreytt fyrri hluta dags og eftir fundi hér og þar fram á miðjan dag, ákvað ég að hvíla mig aðeins. Ég lagði mig með MAN og las í gegnum eitt blað, nokkuð sem ég tek sjaldan tíma í og sofnaði svo smástund. Þegar ég vaknaði var engu líkara en ég hefði breyst í Superwoman, svo full var ég af orku og krafti og líkamlegri vellíðan.

Ég var í þvílíku orkukasti langt fram á kvöld að þegar ég lagðist á koddann hélt ég bara áfram sama dampi og sofnaði ekki fyrr en um miðja nótt. Orkan var enn til staðar þegar ég vaknaði, svo ég ákvað að nýta hana í að taka allt í gegn í íbúðinni minni, svo nú er sorterað og flokkað, hverju á að henda, hvað á gefa og hvað skal selt. Ég er bara nokkuð sátt við þessa þróun mála og þakka hana HREIN afeitrunarprógramminu (aðeins íslenskara en CLEAN).

Fyrsta vikan er á enda í kvöld og ég er þegar búin að gera matseðil fyrir næstu viku og birgja mig upp af því sem mig vantar í réttina og bústið. Skrapp í Kost eftir helstu nauðsynjum, eins og frosnum og ferskum ávöxtum og quinoa, sem ég fann í blönduðum litum. Það er skemmtilegra að borða svart, rautt og hvítt í bland, en bara hvítt. Leit svo við í Lifandi markað til að ná mér í lítra af Biona olíu, en ég er að verða búin með eina slíka flösku frá því ég byrjaði undirbúningsferlið. Ég ætti því að vera vel smurð.

Í kvöld fór ég út að borða með fyrrum samstarfsmönnum úr ferðaþjónustugeiranum á Vesturlandi. Því fékk ég mér búst, bæði í morgun- og hádegismat í dag, en borðaði svo aðalmáltíð dagsins með þeim. Fékk flott salat og lambakjöt. Eina sem ég þurfti að taka með mér var salatsósan.