Guðrún Bergmann - haus
11. október 2014

Hvað gerirðu fyrir húðina?

903467_454357747980149_1322159533_o.jpgÉg var stoppuð á götu í gær af konu sem ég þekki ekkert og spurð þessarar spurningar. Spyrjandinn var að minnsta kosti tíu árum yngri en ég, en vildi fá leiðbeiningar um hvað hún gæti gert til að halda húð sinni góðri. Mér datt í hug að það væru fleiri forvitnir, svo hér koma upplýsingarnar sem ég gaf henni.

Ég hef í rúm tuttugu og fimm ára einungis notað krem sem eru úr lífrænum efnum. Krem eins og frá Earth Science, Lavera, Dr. Hauska, Mádara og fleiri góðum merkjum, sem ekki nota paraben í vöruna sína. Undanfarin ár hef ég mest notað Lavera kremin og þar er Q10 kremið þeirra í uppáhaldi, því Q10 hjálpar til við endurnýjun frumnanna. Ég hef líka verið að nota Rose kremið frá þeim til skiptis við hitt, því mér finnst gott að örva húðina með því að skipta um krem.

Ég tek reglulega kúr með serumi frá Episilk og þar vel ég líka serum með Q10 til að hjálpa frumunum til að endurnýja sig. Ég set það á húðina á kvöldin og set ekki krem ofan á það. Á móti Episilk-inu nota ég svo Æsku Galdur frá Villimey og ber á húðina eftir að ég hef þrifið hana. Þetta er frábær olía full af jurtum sem næra húðina og vernda hana.

Ég drekk reglulega að minnsta kosti 2 lítra af vatni á dag, reyki ekki, nota ekki sterkt áfengi og drekk oftast ekkert kaffi. Ef ég fæ mér kaffi, þá held ég mig við 1 bolla á dag. Svo tek ég reglulega inn Super-Omega 3-7-9, sem eru bestu omega hylki sem ég hef fundið hingað til. Þau eru sérlega góð fyrir slímhúðina og ég hef ekki þurft að nota augndropa frá því ég byrjaði að nota það, en ég hafði áður verið með þurrkvandamál í augum og þurft að nota þá nánast daglega.

En það besta sem hægt er að gera fyrir húðina er auðvitað að hætta að borða sykur. Bara við það eitt er hægt að finna hvernig húðin þéttist og stinnist öll. Og sama hvað líður öllum bætiefnum og töfrakremum, þá er það að mínu mati mataræðið sem skiptir mestu máli. Nú þegar ég er á HREIN detox-kúrnum sé ég hvernig hrukkurnar í kringum augun grynnast dag frá degi og húðin verður flottari og stinnari.

Ljósmynd: Vera Pálsdóttir fyrir bókina UNG Á ÖLLUM ALDRI