Guðrún Bergmann - haus
11. október 2014

Að hálfu HREIN

img_6145.jpgÞað má segja að ég sé komin yfir miðjulínuna í HREIN afeitrunarkúrnum, nú þegar ellefti dagur af tuttugu og einum er senn á enda. Þetta hefur bæði verið lærdómsríkt og skemmtilegt ferli, einkum þó vegna þess að HREIN kúrinn er svo einfaldur í framkvæmd og ég er aldrei svöng. Ef ég finn fyrir svengd get ég fengið mér smá snakk milli mála. Síðdegis hef ég stundum fengið mér pecanhnetur og lífrænt epli og í dag fékk ég mér epli með möndlusmjöri sem er algjört sælgæti.

Annars lítur snakklistinn svona út: Eplasneiðar og möndlusmjör, hvítlauksjurtakex, kryddaður gulrótarhummus með hvítlauksolíu, guacamole og grænmeti, hrískökur úr brúnum grjónum með hnetusmjöri og sykurlausri sultu, ristaðar kjúklingabaunir, hráar hnetur með ferskum ávöxtum, grænkálsflögur, avókadó með miso og grænmeti með hreinni Ranch-sósu (uppskrif í bókinni). Svo er hægt að velja hvað af honum maður vill borða milli mála.

Í hádeginu í dag borðaði ég nokkuð vel kryddaðan linsubaunarétt, sem auðvelt er að gera. Uppskriftin er fyrir tvo.

  • 1 lítið butternut grasker, afhýtt og skorið í svona 2 cm bita
  • 1 matskeið extra virgin ólífuolía
  • sjávarsalt og nýmalaður svartur pipar eftir smekk
  • 1 teskeið Madras karrýduft
  • 1 teskeið garam masala

Hitið ofninn í 200°C. Veltið graskersbitunum upp úr ólífuolíu og kryddi. Setjið bitana á bökunarpappír í ofnskúffu. Bakið í 30 mínútur eða þar til þeir eru mjúkir og aðeins brúnaðir.

Á meðan er hægt að búa til linsubaunapottréttinn.

  • 1 teskeið extra virgin ólífuolía
  • 1 lítill hvítur laukur, smátt skorinn
  • 2 marin hvítlauksrif - tók mín úr frysti og það var auðvelt að merja þau
  • 1 ½ teskeið Madras karrýduft
  • ½ teskeið garam masala
  • 2 bollar grænmetissoð - setti 2 Kallö grænmetisteninga í 2 bolla af sjóðandi vatni
  • ½ bolli rauðar linsur, skolaðar
  • ofnbakaða butternut graskerið
  • handfylli af þvegnu grænkáli, skorið í smáa bita
  • sjávarsalt og ferskur svartur pipar eftir smekk

Hitið olíu á frekar djúpri pönnu með loki við miðlungshita. Steikið laukinn þar til hann er mjúkur eða í svona 5 mínútur. Bætið hvítlauk, karrý og garam masala á pönnuna og steikið í ½ mínútu. Hellið grænmetissoðinu á pönnuna og setjið linsurnar út í. Látið suðuna koma upp, lækkið hitann og látið malla í 10 mínútur undir loki. Hrærið annað slagið í. Bætið graskersbitunum út á pönnuna, svo og grænkálinu og sjóðið í 10 mínútur í viðbót.

Njótið með gleði og hamingju.